Ekki verður lengra gengið í hagræðingu á FSA án þess að skerða þjónustu
Þorvaldur segir að hagræðingaraðgerðirnar muni að stórum hluta byggjast á tillögum sem gerðar voru í framhaldi af starfsdegi með forstöðumönnum deilda í júní s.l. Margar þessara aðgerða séu smáar en hann minnir á að margt smátt gerir eitt stórt. "Í þeirri vinnu sem er í gangi við fjárlög næsta árs er gert ráð fyrir að Sjúkrahúsið á Akureyri hagræði í sínum rekstri sem nemur 1,5%. Það þýðir um 70 milljónir króna sem koma til viðbótar þeim halla sem verður á þessu ári. Miðað við rekstrarafkomu fyrstu 6 mánuði þessa árs þyrfti því að lækka rekstrargrunn sjúkrahússins á næsta ári um allt að 220 milljónir eða rúm 5%. Verði þetta niðurstaðan hefur sjúkrahúsið þurft að skera niður rekstur sinn um 750 mkr. frá árinu 2008 sem er á milli 15 og 16%. Frá árslokum 2007 til ársloka 2010 fækkaði starfsmönnum um 60 eða rúm 10%. Þrátt fyrir þessar breytingar hafa biðlistar ekki lengst og svo virðist sem okkur hafi tekist að veita nauðsynlega þjónustu og geta tryggt öryggi sjúklinga."
Þorvaldur segir að þetta hafi tekið á og að víða hafi hrikt í innra starfi sjúkrahússins og ljóst að starfsfólk (og sjúklingar) sé orðið afar þreytt á sparnaði og sífelldum niðurskurði. Starfsfólkið hafi hins vegar staðið sig frábærlega í þessu umróti og sinnt sjúklingum af mikilli fagmennsku og öryggi. "Ekki verður lengra gengið í hagræðingu hjá okkur án þess að hætta einhverri þjónustu eða skerða verulega frá því sem nú er. Á næstu vikum verður leitað leiða til að mæta þessari niðurskurðarkröfu án þess að öryggi sjúklinga sé ógnað en ljóst er að þjónusta mun skerðast. Veit ég að stýrihópurinn sem er að vinna að tillögum um nýja framtíðarsýn mun hjálpa okkur í þessari vinnu," segir Þorvaldur ennfremur á vef FSA.