Ekki skylda að örmerkja ketti sem þegar eru eyrnamerktir
Neytendasamtökin hafa fengið nokkrar fyrirspurnir vegna nýrra reglna um kattahald sem settar hafa verið á Akureyri. Kattaeigendur gagnrýna meðal annars að
þeim sé skylt að örmerkja ketti sem þeir hafa þegar látið eyrnamerkja. Kattaeigendum er nú gert að skrá ketti sína hjá
bænum og skila inn gögnum til staðfestingar því að kötturinn sé örmerktur, ormahreinsaður og ábyrgðatryggður.
Neytendasamtökin spurðust fyrir um það hjá bænum hvort rétt gæti verið að eigendum katta sem þegar eru eyrnamerktir sé gert skylt að láta einnig örmerkja þá með tilheyrandi kostnaði. Bentu samtökin að slík ákvörðun yrði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og þyrfti bærinn að sýna fram á af hverju eyrnamerking væri talin ófullnægjandi. Í svari bæjarins kom fram að hægt sé að sækja um undanþágu ef köttur er þegar eyrnamerktur. Þess er þó hvergi getið og er því rétt að upplýsa kattaeigendur um þessa undanþágu. Bærinn getur með öðrum orðum ekki skyldað fólk til að örmerkja ketti sem þegar eru eyrnamerktir, segir í fréttatilkynningu frá Neytendasamtökunum.