Ekki ljóst hvenær framkvæmdir við Vínbúðina hefjast

Vínbúðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Vínbúðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Ekki liggur enn fyrir hvenær framkvæmdir við viðbyggingu Vínbúðarinnar á Akureyri hefjast. Eins og fram hefur komið hefur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 um að breyta deiliskipulagi norðurhluta mið­bæjar Akureyrar er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu. Jafnframt er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrar frá 12. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfis­umsókn fyrir viðbyggingu við Vínbúðina að Hólabraut 16. Það voru eigendur fasteigna við Hólabraut og Laxagötu sem sendu inn kæru til úrskurðarnefndar vegna þessara mála. “Á meðan úrskurður lá ekki fyrir var ákveðið að hafa málið í biðstöðu.  Á næstu vikum mun málið skýrast en á þessari stundu liggur ekki fyrir hvenær framkvæmdir  hefjast eða hvort töfin muni hafa áhrif á tilboð Hyrnu í verkið,” segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR.

Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri á Akureyri gaf út byggingarleyfið þegar deiliskipulagið var staðfest, eða 12. október í fyrra og hefði ÁTVR getað hafið framkvæmdir þá. Þar á bæ var ákveðið að bíða þar til úrskurður ÚSB lægi fyrir. Úrskurðurinn liggur nú fyrir og því gætu framkvæmdir verið hafnar, að sögn Péturs Bolla. “Úrskurður ÚSB er endanlegur sem slíkur sem stjórnvaldsákvörðun en íbúarnir geta látið reyna á málið að nýju með því að fara í hefðbundið dómsmál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Það er bæði kostnaðarsamt og gæti tekið þó nokkurn tíma. Á meðan gæti ÁTVR verið langt komið með viðbygginguna og hvar eru menn þá staddir?” segir Pétur Bolli.

Byggingafélagið Hyrna ehf. átti lægsta tilboð í framkvæmdir við viðbygginguna en tilboðin voru opnuð um miðjan desember 2010. Alls bárust átta tilboð í verkið og var kostnaðaráætlun rúmar 77,8 milljónir króna. Hyrna bauð um 68,6 milljónir króna í verkið, eða 88% af kostnaðaráætlun. Samkvæmt útboðsgögnum á sínum tíma átti verkinu að vera að fullu lokið eigi síðar en 1. júní 2011.

 

 

Nýjast