Ekki lengur gjald fyrir skóla- máltíðir á Svalbarðsströnd

"Við reynum að bera okkur vel, en ég veit vel að þetta verður erfitt ár," segir Árni Bjarnason sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi.  Gengið hefur verið frá fjárhagsáætlun fyrir hreppinn og er útkoman sú að það tókst að setja saman hallalausa áætlun, að sögn sveitarstjóra. "Við gerum ráð fyrir að afgangur verði á bilinu 10 til 11 milljónir króna," segir hann.   

Fyrirhugað er að endurskoða fjárhagsáætlun tvisvar í ár, með vorinu og svo aftur í haust.  "Það eru ýmsir óvissuliðir þarna inni, maður veit ekki hvernig málin þróast en með því að gera áætlunina nú upp með þessum afgangi höfum við borð fyrir báru að mæta óvæntum útgjöldum," segir Árni.

Samþykkt var í Svalbarðsstrandarhreppi að hætta að taka gjald vegna máltíða grunnskólabarna og þá verður leikskólabörnum í hreppnum boðið upp á ókeypis máltíð í hádeginu.  Eins nefnir Árni að frístundastyrkur sem var 10 þúsund krónur í fyrra hafi hækkað í 11 þúsund krónur í ár, en hann fá foreldrar til að mæta útgjöldum vegna íþrótta- eða tómstundaiðkunar barna sinna.  "Við reyum hvað við getum að koma til móts við fólkið í sveitarfélaginu," segir Árni.

Hann segir að sveitarfélagið hafi verið nokkuð vel sett fjárhagslega og því vel undirbúið að mæta áföllum líkt og þeim sem urðu í kjölfar bankahrunsins á liðnu haust.  "Við töpuðum ekki peningum, en áttum peningalegar eignir og getum nú leyft okkur að njóta vaxtamunarins," segir hann.  Ákveðið hefur verið að gjaldskrá hreppsins verði óbreytt frá fyrra ári að öðru leyti  en því sorphirðugjald hækkar.  Um verður að ræða nær 20% hækkun á því gjaldi, enda segir Árni að kostnaður við sorphirðu sé mikill og fari vaxandi.

Nýjast