Ekki hægt að nýta strandflutninga fyrir dagvöru

„Við myndum ekki nýta okkur strandsiglinar, það er ljóst þar sem við erum að fást við dagvöru. Megnið af okkar afgreiðsluferli er þess eðlis að pantanir berast fram til kl. 16  á daginn og eru komnar í síðasta lagi í hús til viðskiptavina í Reykjavík um kl. 9 morguninn eftir,“ segir Gunnlaugur Eiðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Kjarnafæðis. „Mér finnst þetta því út í hött, en ég veit ekki um sjónarmið fólks utan okkar geira.“ Unnsteinn Jónsson verksmiðjustjóri hjá Vífilfelli á Akureyri segir að strandsiglingar myndu nýtast fyrirtækinu að því tilskyldu að verðið verði samkeppnishæft á við landflutninga.

Sigmundur Einar Ófeigsson framkvæmdastjóri Norðlenska segir að félagið ætti erfitt með að nýta sér strandsiglingar þegar um er að ræða dagvöru. “Hugsanlega gætum við notað þær við stærri flutninga á heilgámaförmum en ekki við pantanir verslana á dagvörum,“ segir Sigmundur. Hann bætir við að ljóst sé að einungis lítill hluti af vörum fyrirtækisins gæti notast við strandflutninga. „Strandflutningar eru eitt en þá á eftir að koma viðkomandi vöru til neytenda sem þá kostar sitt. Það þarf að reikna allt dæmið til enda.“

Starfshópur á vegum innanríkisráðherra um hvernig koma megi strandsiglingum á að nýju skilaði ráðherra tillögum sínum á dögunum. Hópurinn leggur til að leitað verði tilboða í siglingar samkvæmt ákveðnum forsendum þar sem boðið verði í meðgjöf ríkisins til nokkurra ára meðan siglingarnar koma undir sig fótunum. Miðað er við að um tilraunaverkefni verði að ræða til nokkurra ára og að því loknu standi siglingarnar undir sér.

Nýjast