Hjalti Jón Sveinsson skólameistari VMA segir að vonast sé til að geta boðið upp á þetta nám, þ.e. 5. önnina næsta haust og að því sé stefnt. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að aðeins fyrstu fjórar annirnar af fimm yrðu kenndar í VMA. Baldvin Ringsted kennslustjóri tæknisviðs VMA segir á visir.is, að sótt hafi verið um leyfi til að kenna lokaönnina á Akureyri gegn því að Félag málmiðnaðarmanna festi kaup á nýju húsnæði til að leigja skólanum. "En svo fór allt til fjandans. Enginn kaupir neitt eða selur neitt. Húsnæðisskorturinn er því aðalástæðan fyrir þessu," segir Baldvin.
Sigurður Júlíus Brynjarsson, bifvélavirkjanemi segir á visir.is að vöntun sé á lærðu fólki í þessum geira, auk þess sem þetta stuðli að því að menn flosni upp úr skóla. Hann segir eina valkostinn fyrir hópinn hafa verið að flytja til Reykjavíkur og ljúka náminu við Borgarholtsskóla. Hópurinn hafi hins vegar ekki verið látinn vita af þessum fyrirætlunum fyrr en of seint, því í byrjun desember var þegar orðið fullmannað í deildina sunnan heiða.