Ekki fresta til morguns því sem þú getur gert í dag

Víkurskarð. Myndin er úr safni
Víkurskarð. Myndin er úr safni

Stórhríð verður á Norður- og Austurlandi á morgun og hvetur veðufræðingurinn Óli Þór Árnason, hjá Veðurstofu Íslands, fólk til þess að sinna frekar erindum í dag en á morgun, ef fara þarf um lengri veg. Hálka eða snjór er á langflestum vegum landsins.

Veðurspá gerir ráð fyrir samfelldri snjókomu næstu tvo sólarhringa í Skagafirði og á Tröllaskaga. Auk þess verður hvasst víða um land. 

„Það verður einna hvassast í kvöld, frá sirka Eyjafirði og vestur úr. Mesta úrkoman verður á þeim slóðum, líklega í kringum Tröllaskagasvæðið. Í kringum miðnætti þá hins vegar verður vindur orðinn nokkuð víða svona hvassviðri, stormur. Sérstaklega á Norðurlandi miðju og vestur á firði. Hægari austast og alveg til morguns, en svo er morgundagurinn bara hvassviðri, stormur og snjókoma eða mjög þéttur éljagangur,“ segir Óli Þór í samtali við fréttastofu RÚV.

Hann hvetur fólk sem þarf um lengri vegalengdir að fara, til að sinna helstu erindum í dag frekar en á morgun ef þess er kostur.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka eða snjór á flestum vegum landsins, þó minna á Austurlandi. Á Vestfjörðum og Norðurlandi er éljagangur og unnið er að hreinsun vega.

 

Nýjast