Ekki fallist á útvíkkað starfsleyfi fyrir móttökustöð

Hringrás er með umfangsmikla starfsemi við Ægisnes og þar hafa verið gerðar miklar endurbætur.
Hringrás er með umfangsmikla starfsemi við Ægisnes og þar hafa verið gerðar miklar endurbætur.

Á síðasta fundi skipulagsnefndar var tekið fyrir erindi frá Umhverfisstofnun þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu að útvíkkuðu starfsleyfi fyrir móttökustöð Hringrásar hf. fyrir spilliefni og annan úrgang að Ægisnesi 1 á Akureyri. Skipulagsnefnd getur ekki fallist á útvíkkað starfsleyfi þar sem skilyrði er fram koma í núverandi byggingar- og starfsleyfi hafa ekki verið uppfyllt.

Í starfsleyfisumsókninni er sótt um útvíkkun á starfseminni vegna móttöku á almennum úrgangi til flokkunar og förgunar. Samkvæmt gildandi starfsleyfi hefur fyrirtækið leyfi til þess að taka við allt að 3.900 tonnum af úrgangi á ári til meðhöndlunar. Nú sækir fyrirtækið um að útvíkka starfsleyfið þannig að því verði heimilt að taka við allt að 20.000 tonnum af úrgangi til meðhöndlunar í viðbót við þann úrgang sem fyrirtækið hefur heimild til að taka við nú.

Á fundi skipulagsnefndar var einnig tekið fyrir erindi, þar sem Íslenska Gámafélagið ehf, óskar eftir áliti skipulagsnefndar á breyttri notkun hússins á lóðinni nr. 7n við Draupnisgötu. Fyrirhugað er að nota húsið til umhleðslu á sorpi og endurvinnsluhráefnum í gáma til flutnings. Þar sem útisvæði við húsið er takmarkað hefur ÍG tekið á leigu geymslusvæði við Goðanes 2 fyrir gáma fyritækisins. Innkomið er samþykki 8 af 19 eigendum séreignarhluta. Skipulagsnefnd telur að breytingar sem þessar á hagnýtingu séreignarinnar séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Nefndin hafnar því erindinu þar sem einungis 8 eigendur séreignarhluta af 19 hafa samþykkt breytinguna. Vísað er til 41. gr. 5. tl. A stafliðar með vísun í 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í greininni kemur fram að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi eru háðar samþykki allra eigenda hússins, ef þær hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum.

 

Nýjast