Ekkert samræmi við ferjusiglingar út í Grímsey

mth@vikubladid.is

„Við leggjum til að boðin verði út ferjurúta eða ferjuskutla milli Akureyrar og Dalvíkur sem yrði í gangi á milli staðanna á ferjutímum yfir sumarmánuðina,“ segir Karen Nótt Halldórsdóttir formaður Hverfisráðs Grímseyjar. Hverfisráðið hefur lagt slíka tillögu fram og standa vonir til að næsta sumar hafi verið fundin útfærsla til að bæta samgöngur.

Karen Nótt segir að samgöngur á milli Dalvíkur og Akureyrar séu ekki í neinu samræmi við ferjusiglingar út í Grímsey. Strætó komi til Dalvíkur 5 mínútum eftir að ferjan leggi af stað úr höfn. „Og það er aldrei hægt að komast á milli staðanna með almenningssamgöngum til Akureyrar þegar ferjan kemur til Dalvíkur á kvöldin,“ segir hún.

 Sumir sleppa því að koma

Ferðamenn hafa sleppt því að leggja leið sína út í Grímsey vegna þessa, en Karen Nótt segir að fólk sem virkilega ætli sér með ferjunni út í eyju verði þá ýmist að gista á Dalvík eða koma þangað á bílaleigubílum. Stundum hafi íbúar í eynni sjálfir staðið í því að útvega ferðafólki far eftir að í land á Dalvík er komið.

Hún segir að yfir háannatímanná miðju sumri séu um það bil 50 ferðamenn í hverri ferjuferð út í Grímsey, sumarið hafi verið mjög gott og eyjan njóti vinsælda. Nú þegar liðið er nokkuð á ágústmánuð sé farið að draga úr straumi ferðamanna út í eyju.

Grímseyingar hafa óskað eftir stuðningi frá Akureyrarbæ vegna ferjumála. Ferjan Sæfari sem gengur á milli sé komin vel á tíma og henti ekki lengur. „Það er kominn tími á að skipta henni út fyrir hentugra skip,“ segir Karen Nótt.


Athugasemdir

Nýjast