Ekkert nýtt komið fram sem gefur tilefni til afturköllunar

Landsdómsmálið var til umfjöllunar á félagsfundi Samfylkingarinnar á Akureyri.
Landsdómsmálið var til umfjöllunar á félagsfundi Samfylkingarinnar á Akureyri.

Almennur félagsfundur Samfylkingarinnar á Akureyri, sem haldinn var í gærkvöld, leggst gegn þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde. Ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til afturköllunar og því hvetur fundurinn þingmenn flokksins til að greiða atkvæði gegn henni. Félagsfundurinn hvetur einnig þá þingmenn Samfylkingarinnar sem sátu í ríkisstjórn Geirs H. Haarde að sýna þá dómgreind og siðferðisþrek að taka ekki þátt í meðferð þingályktunartillögunnar heldur kalla inn varamenn sína, segir í ályktun fundarins.

Þá gerir félagsfundurinn þá kröfu til þingmanna flokksins úr kjördæminu að þeir sjái til þess að sæti þeirra séu ávallt skipuð á þingi þegar þeir eru fjarverandi skv. reglum Alþingis. Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar sýnt er að stórpólítískt málefni verða til afgreiðslu eins og gerðist í síðustu viku. Fundurinn áréttar mikilvægi þess að þingmenn flokksins vinni þétt saman að framgangi þeirra verkefna sem samið var um í stjórnarsáttmálanum svo sem endurskoðun stjórnarskráarinnar, endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og aðildarumsókn að ESB. Ríkisstjórnin hefur náð umtalsverðum árangri við endurrreisn samfélagsins eftir það efnahagslega hrun sem varð hér haustið 2008. Félagsfundurinn hvetur þingmenn kjördæmisins til að standa þétt að baki ríkisstjórninni, bæði í orði og verki, segir ennfremur í ályktun fundarins.

 

 

Nýjast