Þegar Júlíus Havstein var sýslumaður Þingeyinga komu upp nágrannaerjur milli tveggja bænda í Kelduhverfi. Dag einn verður annar bóndinn var við að nágranni hans og deilunautur var vel í glasi og það á almannafæri, en slíkt var þá og er víst enn, bannað með lögum.
Bóndi notaði tækifærið og kærði granna sinn snimmendis til sýslumanns fyrir fyllerí á almannafæri. Yfirvaldið dómtók málið og eftir vandlega íhugun og yfirlegu, felldi Júlíus þann dóm að maðurinn væri sýkn saka. Þótti mörgum þessi dómur harla undarlegur, enda mörg vitni að drykkjulátum sakbornings á almannafæri.
En lögskýring sýslumanns var sú, að í Kelduhverfi væri í raun ekkert sem félli undir skilgreiningu laganna á hugtakinu „almannafæri.“ JS