Eiríkur Björn gagnrýnir stjórnvöld
Eiríkur Björn Björgvinsson Bæjarstjóri á Akureyri gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir seinagang við lausn á byggðavanda Grímseyinga. Ráðuneytin sem fara með einstaka málaflokka gefa engin svör. Rúv sagði frá þessu á vef sínum.
„Í nóvember ákvað ríkisstjórnin að ráðist yrði í sérstakar aðgerðir til að sporna við neikvæðri byggðaþróun í Grímsey. Aðgerðirnar voru í fjórum liðum: Styrkja átti stöðu útgerðarinnar, takast á við skuldavanda og auka kvóta. Færa átti Grímsey í verkefnið „Brothættar byggðir". Bæta átti samgöngur, fjölga ferðum Grímseyjarferjunnar og niðurgreiða fargjöld og kanna átti leiðir í orkumálum til að lækka húshitunarkostnað,“ segir í fréttinni.
Nú þegar um hálft ár er liðið, er að verða búið að ganga frá samningum um skuldir útgerðarinnar. Það er búið að setja Grímsey í brothættar byggðir og kvótamálin eru tilbúin. Ekki er búið að leysa aðra liði vandans. „Það getur verið að ástandið í samfélaginu sé þannig í dag að það þurfi að bíða eftir tillögum. En við erum allavega ekki sátt við það hversu við erum dregin á svörum,“ segir Eiríkur Björn í samtali við Rúv. /epe