Einstakur viðburður í félagslífi stúdenta við Háskólann á Akureyri

Meðfylgjandi myndir tók Egill Bjarni Friðjónsson
Meðfylgjandi myndir tók Egill Bjarni Friðjónsson

Sprell í HA

Það var svo sannarlega líf og fjör í miðbæ Akureyrar á föstudag  í síðustu viku þegar stúdentar úr Háskólanum á Akureyri fjölmenntu á Ráðhústorg í skrautlegum búningum. Um var að ræða Sprellmót háskólans sem er árlegur viðburður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA). Sprellmótið er einn af aðalviðburðum í félagslífi stúdenta en þar keppa aðildarfélög SHA, 7 talsins, í hinum ýmsu greinum. Gestir og gangandi gætu hafa heyrt í herlegheitunum enda snerist ein keppnin um að hafa sem mestu lætin með söng. Einnig var keppt í reiptogi og að gera mennskan pýramída. Dagskráin hélt svo áfram í Háskólann á Akureyri þar sem meðal annars var keppt í hjólbörukeppni, ásadansi, belghoppi og bjórþambi, svo fátt eitt sé nefnt. Keppnin endaði svo um kvöldið á hæfileikakeppni.

Stúdentar við Háskólann á Akureyri eru afar ánægðir með sprellmótið enda er það einstakur vettvangur fyrir alla stúdenta háskólans til þess að koma saman og mynda tengsl þvert á námsleiðir háskólans. Mótið hefur fest sig í sessi sem einn vinsælasti viðburður SHA og er alltaf vel sóttur af stúdentum. Stafsfólk háskólans sér um dómgæslu á mótinu og skemmtir sér ekki síður en stúdentarnir.

„Það er ekkert sem toppar Sprellmótið og það er án efa uppáhalds viðburður þeirra sem þekkja mótið og hafa tekið þátt. Mér finnst þetta frábært tækifæri til að kynnast öðrum stúdentum og þegar maður sér búningana þá áttar maður sig stundum á, já þessi er í hjúkrunarfræði eða sjávarútvegsfræði. Á Sprellmótinu fórna stúdentar sér svo sannarlega fyrir félagið og fara út fyrir þægindarammann auk þess fá stúdentar svo mikla hvatningu frá öllum, ekki bara frá sínu aðildarfélagi heldur einnig frá öðrum félögum,“ segir Sólveig Birna Elísabetardóttir, formaður SHA.

sprell í Ha 2


Athugasemdir

Nýjast