Eins marks sigur Akureyringa í Höllinni

Akureyri vann nauman eins marks sigur gegn Fram á heimavelli í kvöld, 25-24, í háspennuleik í Höllinni fyrir norðan í N1-deild karla. Sveinbjörn Pétursson hélt upp á 23 ára afmælisdaginn með því að eiga stórleik í marki norðanmanna en hann varði 21 skot og nokkur þeirra á mikilvægum augnablikum. Magnús Gunnar Erlendsson var að sama skapi besti maður Fram í leiknum en hann varði 18 skot í marki gestanna á 40 mínútum.

Bæði lið spiluðu fasta og góða vörn í byrjun og lítið var skorað fyrstu mínútur leiksins. Jafnræði var með liðunum framan af og staðan 2-2 eftir átta mínútur. Fram komst tveimur mörkum yfir, 4-2, en þá settu norðanmenn í annan gír og breyttu stöðunni í 7-5 sér í vil. Akureyri komst svo þremur mörkum yfir 10-7.

Fram minnkaði muninn í eitt mark þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum en þegar þarna var komið við sögu var Magnús Gunnar Erlendsson kominn í mark Fram og reyndist hann norðanmönnum afar erfiður. Akureyringar náðu þó að hanga á tveggja marka forystu út hálfleikinn. Staðan 12-10 í leikhlé.

Framarar jöfnuðu metin snemma í seinni hálfleik í 14-14 og allt í járnum í Höllinni. Næstu mínútur skiptust liðin á að skora en Akureyringar voru alltaf skrefinu á undan og náðu tveggja marka forystu í ný, 17-15 og 19-17. Norðanmenn náðu svo þriggja marka forystu, 21-18, þegar níu mínútur lifðu leiks.

Fram hleypti Akureyringum ekki lengra fram úr sér og þjörmuðu að þeim og Einar Rafn Eiðsson minnkaði muninn niður í eitt mark, 23-24, þegar ein mínúta lifði leiks og spennan rafmögnuð í Höllinni. Akureyringar fengu svo dæmt vítakast þegar 40 sekúndur voru eftir í stöðunni 24-23. Bjarni Fritszon fór svellkaldur á vítapunktinn og gerði enginn mistök þar og kom Akureyringum tveimur mörkum yfir, 25-23, og þar með var björninn unninn. Sveinbjörn Pétursson kórónaði svo góðan afmælisleik með því að verja 21 skotið sitt í leiknum í næstu sókn Framara, en Einar Rafn Eiðsson náði hins vegar að minnka muninn í eitt mark í þann mund sem tíminn rann út. Lokatölur, 25-24.

Akureyringar skella sér með sigrinum upp að hlið Vals með tíu stig í fimmta til sjötta sæti, en Fram hefur áfram 12 stig í öðru sæti.

Mörk Akureyrar:  Bjarni Fritzson 8 (4), Oddur Gretarsson 7, Geir Guðmundsson 3, Heimir Örn Árnason 3, Guðmundur Hólmar Helgason 4.
Varin skot
: Sveinbjörn Pétursson 21 (1).

Mörk Fram: Einar Rafn Eiðsson 7, Stefán Baldvin Stefánsson 5, Jóhann Karl Reynisson 3, Sigurður Eggertsson 3, Ingimundur Ingimundarson 4, Arnar Birkir Hálfdánarson 1, Halldór Jóhann Sigfússon 1 (1).
Varin skot: Sebastian Alexanderson 2, Magnús Gunnar Erlendsson 18.

Nýjast