Einn landvörður þjónar þúsund gestum við Dettifoss

Dettifoss. Mynd: Þráinn Ingólfs
Dettifoss. Mynd: Þráinn Ingólfs

Vorleysingar eru miklar þessa dagana við Dettifoss og vatnavextir í Jökulsá með allra mesta móti þar í gljúfrinu. Aðeins einn landvörður er við fossinn en aðsóknin hefur tvöfaldast frá því á sama tíma í fyrra. Þangað koma nú um 1000 manns á dag. Þetta kemur fram á vef Rúv.

Ferðamenn þurfa enn að ganga stóran hluta leiðarinnar að fossinum á snjó, því hefur landvörðurinn í ýmsu að snúast. Leiðin er um einn kílómetri, það hlánar hratt í hlýindunum og smáir lækir verða að stærðar ám. 

Dettifoss hefur löngum þótt tignarlegur, en sjaldan eins og nú, enda gríðarlegur vöxtur í Jökulsá. „Þetta er svona eins og verður mest í honum,“ segir Sigurður Erlingson, landvörður í samtali við Rúv. „Það fór yfir 500 rúmmetra á sekúndu við Grímsstaði, en síðan kom hellingur í Jökulsá á þessum 25 kílómetrum þaðan og hingað. Þannig að þetta er alveg með því mesta,“ sagði Sigurður.

Hann telur að tvöfalt fleiri gestir hafi heimsótt svæðið nú í apríl og maí samanborið við sama tíma á síðasta ári. Jafnframt segir hann stíga á svæðinu þola álagið illa og bendir á að á þessum tíma sé jarðvegurinn viðkvæmastur. /epe.

 

Nýjast