Einkasýning Julie Laenkholm

Julie Laenkholm. Mynd: epe
Julie Laenkholm. Mynd: epe

„Húsavík“ er yfirskriftin á einkasýningu Julie Lænkholm sem opnar í Safnahúsinu á Húsavík þann 13. ágúst og stendur til til 15. október. Sýningin byggir á rannsókn Julie á eigin fjölskyldusögu en Julie er afkomandi Þórðar Guðjohnsen sem opnaði verslun á Húsavík árið 1871 og rak um langt skeið áður en hann fluttist með fjölskyldu sinni til Danmerkur og byggði sér þar hús sem hann nefndi „Husavik“. Á sýningunni sýnir Julie röð verka úr ull sem hún hefur litað með jurtum sem hún hefur tínt í nágrenni Húsavíkur, þæft og fest á gamlar dýnur. Sýningin opnar með röð viðburða sem hefjast kl. 10 á reitnum milli Samkomuhússins og Öskju. Meðlimir í Kvenfélagi Húsavíkur, Leikfélagi Húsavíkur og Kirkjukór Húsavíkur annast flutning dagskrár ásamt hópi húsvískra barna. Klukkan 15:30 verður gestum boðið að ganga yfir í Safnahúsið og njóta verkanna sem þar eru staðsett á efstu hæð.

Dagskráin verður sem hér segir:
Öskjureitur
10:00-18:00 Húsvísk börn búa til „merkingarstafla“ (meaning pile). Öllum börnum er velkomið að taka þátt í þessu verkefni!
14:00 Kirkjukór Húsavíkur syngur lag Péturs Guðjohnsen "Andvaken" með nýjum texta eftir Julie Lænkholm
14:30 Kvenfélag Húsavíkur flytur lagið "Án titils 2016"
14:00-15:00 Meðlimir í Leikfélagi Húsavíkur munu birtast einhvern tímann á þessu bili!
Safnahús
15:30 Athöfn á efstu hæð Safnahússins. Boðið verður upp á kaffi og súkkulaði.

Nýjast