Eining-Iðja semur við Sparisjóðinn

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Sigrún Lárusdóttir, skrifstofustjóri og gjaldkeri Einingar-Iðju, og Örn Arnar Óskarsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga, skrifuðu í vikunni undir samning um heildarbankaviðskipti. "Stjórn félagsins ákvað að bjóða út öll okkar bankaviðskipti. Aðalbanki okkar er búinn að vera Glitnir til fjölda ára, en við höfum einnig átt viðskipti við Sparisjóðinn og líkað vel. Félagið fékk tilboð frá þremur aðilum og bauð Sparisjóðurinn best. Því erum við að færa allar okkar þjónustu til þeirra. Eining-Iðja á ákveðnar peningalegar eignir og betri ávöxtum getur auðvitað munað heilmiklu fyrir félagið," segir Björn Snæbjörnsson formaður. "Þetta er mikil ánægja og ég tala nú ekki um að fá að þjónusta félag sem hefur hátt í sjöþúsund félagsmenn og víðtæka starfsemi. Þetta er mjög góð viðbót í okkar flóru, við höfum upplifað mjög góð samskipti við félagið í þeim viðskiptum sem við höfum átt við það. Við erum eini aðilinn í bankaþjónustu hér í bænum sem er með höfðustöðvar á Akureyri og því er það mjög ánægjulegt þegar aðilar sem hafa sínar rætur hér í bænum vilja eiga við okkur viðskipti - af því teljum við gagnkvæman ávinning. Við teljum okkur vera fullkomlega samkeppnisfæra miðað við aðra sem eru að veita samskonar þjónustu, við höfum reyndar séð það svart á hvítu þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að við getum tekið við slíkum viðskiptum og veitt góða þjónustu," segir Örn Arnar Óskarsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga.

Örn segir að mjög mikill vöxtur hafi verið í þeirra starfsemi. "Það hefur verið mikil fjölgun fyrirtækja og einstaklinga sem eiga í viðskiptum við okkur. Við þökkum það annars vegar því að við höfum verið að fá mjög góða einkunn í þjónustukönnunum, sem gerðar hafa verið, og hins vegar því að við teljum að fólk sé orðið meira meðvitað um það að við erum Norðlenskt fyrirtæki, að við störfum hér og að okkar höfuðstöðvar eru hér. Við skilum talsvert af okkar hagnaði aftur út í samfélagið í formi ýmiss konar styrkja, eins og til dæmis við æskulýðsstarf, menningu, listir, líknarstörf og forvarnir. Við upplifum það að fólk er meira meðvitað um þetta nú en fyrir fáum árum" segir Örn Arnar.

Nýjast