Einfaldur fiskréttur sem við elskum öll

Hulda Elma Eysteinsdóttir ásamt fjölskyldu sinni. Aðsend mynd
Hulda Elma Eysteinsdóttir ásamt fjölskyldu sinni. Aðsend mynd

Matarhornið er einn af föstu liðum Vikublaðsins, hér er eitt sem birtist  í prentútgáfunni fyrr í sumar.

 „Ég er fjögurra barna móðir og eiginkona. Ég er ÍAK Einkaþjálfari og starfa ég við styrktarþjálfun hjá Þór og Þór/KA í Knattspyrnu, einnig er ég svo heppin að fá að þjálfa 60+ og 70+ hópana okkar á Bjargi,“ segir Hulda Elma Eysteinsdóttir en hún færir okkur gómsætar uppskriftir af þorski í karrýsósu og ljúffengri hráköku.

„Þegar Siggi er heima á hann eldhúsið og er hann mun meiri kokkur en ég. En þegar hann er á sjó græja ég nú oftast einhverja einfalda rétti fyrir okkur hin þar sem við erum öll á fullu í íþróttalífinu alla seinniparta. Hér er einn fiskréttur sem er rosalega einfaldur og við elskum öll“:

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Innihaldslýsing

1 kg þorskur

Smjör

3-5 hvítlauksrif

3,5 dl matreiðslurjómi

1,5 msk karrý

smá cayennepipar

1/2 grænmetisteningur

Salt eftir smekk

Matarhorn

Leiðbeiningar:

Gerið hvítlaukssmjör á pönnu og steikið þorskinn í því í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Kryddið með karrý, hellið rjóma yfir og myljið hálfan grænmetistening yfir. Látið suðuna koma upp. Smakkið til með cayennepipar (farið varlega og byrjið bara á örlitlu). Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum. Þegar ég vil gera vel við okkur geri ég líka hvítlauksbrauð með réttinum. Svo set ég saman það salat sem er til í ísskápnum.

Verði ykkur að góðu.

 Dásamleg hrákaka

Innihaldslýsing

Hrákaka

150 g  möndlur

20 stk döðlur, steinlausar

2 msk kókosolía

1 tsk vanilludropar

hnífsoddur salt

3 msk sterkt kaffi

2/3 dl kókosflögur

2 msk kakó

150 g dökkt súkkulaði

Leiðbeiningar

 

  1. Byrjið á að rista möndlur í 225°c heitum ofni í um 10 mínútur (hrærið af og til í blöndunni). Takið út og kælið.
  2. Setjið döðlur, kókosolíu, kaffi, kakó, kókosflögur, salt og vanilludropa saman í matvinnsluvél og blandið vel saman. Grófsaxið möndlurnar og hrærið þær saman við.
  3. Mótið kökuna á kökudiski.Bræðið súkkulaðið og hellið yfir kökuna. 
  4. Berið fram og njótið!

 

„Ég ætla að skora á hlaupadrottninguna Sigþóru Brynju Kristjánsdóttur að koma með uppskriftir fyrir næsta blað.“

 


Athugasemdir

Nýjast