Einangrunarstöð Svínaræktar- félags Íslands í Hrísey lokað

„Þetta eru nokkur tímamót í starfsemi félagins, en við bindum vonir við að nýtt fyrirkomulag skili árangri, „ segir Hörður Harðarson formaður Svínaræktarfélags Íslands. Til stendur að loka einangrunarstöð Svínaræktarfélags Íslands sem starfandi hefur verið í Hrísey frá því snemma árs 1994.  Nú eru einungis tvær gyltur eftir í stöðinni en þeirra bíður flutningur í sláturhús á fastalandinu.  Um 80 grísir eru þar einnig og verða þeir fluttir á svínabú í landi.  

Samningar hafa tekist milli félagsins og Norsvin International, norska svínaræktarfélagsins um flutning á djúpfrystu sæði sem framvegis verður notað í kynbótastarfi í greininni.  Svínaræktarfélagið hefur fengið einkaleyfi á kaupum á erfðaefni frá Norsvin og hefur það nú samkvæmt samningnum aðgang að kynbótastarfi og erfðaframförum i svínarækt í Noregi.

Hörður Harðarson formaður Svínaræktarfélags Íslands segir að starfsemi stöðvarinnar hafi skilað góðum árangri bæði fyrir bændur og neytendur, dýrin séu með mun hærri kjötprósentu og gefa af sér meira kjöt en áður þekktist.  Þrjú kyn hafa verið flutt inn, Yorkshire, Landrasi og Duroc.  Sama fyrirkomulag er viðhaft og í Noregi varðandi ræktunarstarfið, m.a. með blöndun þessara kynja.

Hörður segir að ætlunin sé að halda áfram öllum búnaði í Hrísey. „Við ætlum að skoða hver reynslan verður af nýju fyrirkomulagi áður en við tökum ákvörðun um sölu á stöðinni, þannig að við munum halda henni í horfinu næstu misseri eða þar til óyggjandi niðurstaða fæst um hvernig til tekst með djúpfrysta sæðið."

Svínabændur hafa sótt námskeið þar sem farið var yfir öll atriði varðandi meðferð á sæðinu en í framtíðinni er gert ráð fyrir að þeir sjái sjálfir um sæðingar hver á sínu búi.

Nýjast