„Eigum harma að hefna“

Katrín Vilhjálmsdóttir í leik með KA/Þór í vetur.
Katrín Vilhjálmsdóttir í leik með KA/Þór í vetur.

KA/Þór á erfiðan heimaleik fyrir höndum í dag er liðið tekur á móti ÍBV í KA-heimilinu kl. 13:00 í N1-deild kvenna í handknattleik. Eyjaliðið situr í þriðja sæti deildarinnar með sextán stig en liðið tapaði naumlega fyrir toppliði liði Fram á dögunum. KA/Þór situr í sjöunda sæti deildarinnar með átta stig en liðið er í harðri baráttu um sjötta og síðasta sætið inni úrslitakeppnina. Þegar liðin áttust við í Eyjum fyrr í vetur vann ÍBV örugglega, 39-23. „Við eigum harma að hefna eftir þann leik og ætlum okkur að gera betur gegn þeim í dag,“ segir Katrín Vilhjálmsdóttir, leikmaður KA/Þórs, í samtali við Vikudag. Hún er ágætlega bjartsýn fyrir leikinn.

„Við erum ekkert með síðra lið en ÍBV. Ef við náum upp góðri vörn og mætum vel stemmdar til leiks getum við vel unnið. Við höfum sýnt oftar en einu sinni í vetur að við getum vel staðið í liðunum í efri hluta deildarinnar,“ segir Katrín. Eftir tap gegn Stjörnunni í síðustu umferð sl. helgi á útivelli, 27-33, er Grótta komið einu stigi upp fyrir KA/Þór í sjötta sætið, en þessi tvö lið koma til með að berjast um síðasta lausa sætið inn í úrslitakeppnina. Þau mætast einmitt innbyrðis í næstsíðustu umferðinni, sem gæti orðið úrslitaleikur um að komast áfram.

„Þannig að það væri ansi gott að ná stigi eða stigum gegn ÍBV í dag og vera í betri stöðu fyrir þann leik,“ segir Katrín.

Nýjast