Fyrirtækið Sælusápur - Lón 2 ehf. er 10 ára um þessar mundir. Stofnandinn, Guðríður Baldvinsdóttir er sauðfjárbóndi og skógfræðingur í Lóni í Kelduhverfi. Hún og eiginmaður hennar, Einar Ófeigur Björnsson, búa með á fimmta hundrað fjár í Lóni.
Skarpur spjallaði við Guðríði eða Guggu eins og hún er kölluð um hvernig hugmyndin að Sælusápum vaknaði. „Þessi hugmynd kom eins og allar góðar með þvælingi á netinu. Maður rekst oft á ýmislegt skemmtilegt og eitt sinn rakst ég a grein um sápugerð og ákvað að prófa mig áfram,“ segir Gugga
Gugga tók þátt í Vaxtarsprotum á vegum Impru-nýsköpunarmiðstöðvar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og stofnaði Sælusápur í kjölfarið. „Mig langaði óskaplega mikið á þetta námskeið en ég var ekki með neitt í höndunum,“ segir Gugga en það var skilyrði að þátttakendur kæmu með viðskiptahugmynd til að vinna úr á námskeiðinu. „Þannig að ég greip sápugerðina með mér, bara til þess að geta tekið þátt. Þar gat exelið reiknað út að þetta væri raunhæft og ég lét slag standa. Ég seldi fyrstu sápurnar þegar Geir sagði „guð blessi Ísland“. Það fór auðvitað um mann þegar íslenska bankakerfið hrundi en svo reyndist þetta besti tíminn til að byrja á svona rekstri. Það reið yfir mikil áhugabylgja á öllu íslensku. Þetta reyndist gott start fyrir mörg lítil íslensk fyrirtæki sem voru að framleiða íslenskar vörur því það var lögð svo mikil áhersla á það í þjóðfélaginu að kaupa íslenskt.“
Viðtalið má nálgast í prentútgáfu Skarps.