„Ég er að skora á sjálfa mig til að losna við feimnina“

Dagný Þóra stillti sér upp fyrir ljósmyndara á æfingu í vikunni. Myndir/epe.
Dagný Þóra stillti sér upp fyrir ljósmyndara á æfingu í vikunni. Myndir/epe.

Dagný Þóra Gylfadóttir er fædd og uppalin í Bolungarvík en fluttist með foreldrum sínum til Húsavíkur árið 2004 þegar hún var á unglingsaldri. Hún hefur síðan búið á ýmsum stöðum á landinu og í tvö ár í Holstebro í Danmörku þar sem hún stundaði nám í matreiðslu og ber starfstitilinn matartæknir með sérhæfingu í ofnæmis- og óþolsmat.

Fyrir rúmu ári síðan byrjaði Dagný að æfa brasilískt jiu jitsu (BJJ) á Húsavík en íþróttina notar hún til að skora feimnina á hólm með góðum árangri.

Fyrir þau sem ekki vita þá er brasilískt jiu-jitsu bardagaíþrótt þar sem mest áhersla er lögð á glímu í gólfinu. Flestir ættu að kannast við Gunnar Nelson sem hefur um árabil verið andlit íþróttarinnar á Íslandi.

 Íþrótt fyrir alla

BJJ

Dagný ásamt æfingafélögum sínum, fylgist einbeitt með Kristjáni Gunnari, þjálfara fara yfir tækniatriði. Mynd/epe.

 Markmiðið í BJJ er að ná yfirburðarstöðu gagnvart andstæðingnum og fá hann til að gefast upp með lás, hengingu eða einhvers konar taki. Íþróttin var hönnuð til að gera veikbyggðari einstaklingum kleift að yfirbuga stærri og sterkari andstæðinga og byggist því að mestu leyti á vogarafli og tækni umfram styrk. Hún hentar þannig fólki af öllum stærðum og gerðum. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst gólfglímuíþrótt þá byrja allar glímur standandi og því læra iðkendur einnig köst og fellur. Til þess að sækja almennar æfingar í BJJ þarf fyrst að ljúka BJJ 101 sem er sex vikna grunnnámskeið.

Uppruna BJJ má rekja til byrjun 20. aldar þegar japanska bardagalistin júdó byrjaði að breiðast út í Brasilíu. BJJ þróaðist þannig út frá júdó og hefur brasilísku bræðrunum Hélio og Carlos Gracie oftast verið eignaður heiðurinn af því.

Einkunnarkerfi í brasilísku jiu-jitsu byggist á lituðum beltum sem standa fyrir mismunandi getustig í íþróttinni. Belti hjá fullorðnum eru eftirfarandi: Hvítt, blátt, fjólublátt, brúnt og svart. Eftir því sem iðkendur verða betri fá þeir strípur á beltið sitt og þegar fjórar strípur eru komnar er oft stutt í næsta belti.

Saga íþróttarinnar á Húsavík er ekki ýkja löng en á síðasta ári byrjuðu Kristján Gunnar Óskarsson, Andri Dan Traustason og Ólafur Ármann Sigurðsson að stunda íþróttina og kenna öðrum. Í dag eru skipulagðar æfingar fjórum sinnum í viku undir merkjum bardagadeildar Völsungs í nýrri og glæsilegri æfingaaðstöðu Crossfit-stöðvarinnar í bænum við Vallholtsveg. Iðkendur eru 16 talsins á ýmsum aldri, sá yngsti 17 ára en elsti 46 ára.

BJJ

Kristján Gunnar, þjálfari sýnir tækniútfærslur á félaga sínum Trausta Dan. Kristján hefur stundað BJJ í sjö ár og er með þjálfararéttindi. Mynd/epe

 

Út fyrir þægindarammann

En þá aftur að Dagnýju en hún segist lengi hafa fylgst með blönduðum bardagalistum í sjónvarpi með manninum sínum. Vinkona hennar hafði svo samband við hana fyrir rúmu ári síðan og bað hana um að koma með sér á námskeið. Dagný sló til og hefur ekki litið til baka síðan.

„Ég var eiginlega að skora svolítið á sjálfa mig með þessu. Ég hef alltaf verið svo svakalega feiminn við að fara út fyrir þægindarammann,“ segir Dagný og bætir við að glíman brasilíska sé heldur betur út fyrir ramman fyrir hana, þar sem augljóslega er mikið um líkamlega snertingu í íþróttinni. „Ég féll svo mikið fyrir þessu að ég er eiginlega bara heltekin.“

Ögrar sjálfri sér

BJJ

Dagný Þóra glímir hér við Þórveigu Unnar Traustadóttur, en góð tækni er lykilatriði í BJJ. Mynd/epe

 Dagný stundar æfingar af miklu kappi og hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma. Hún tók þátt í sínu fyrsta móti í apríl sl. Það var opið mót á vegum Mjölnis í Reykjavík og hafnaði Dagný í 3. sæti í sínum þyngdarflokki. „Svo keppti ég líka í síðasta mánuði á stelpumóti sem heitir Gilitrutt. Það voru 17 stelpur sem kepptu í mismunandi  þyngdarflokkum. Þar lenti ég í þriðja sæti líka og hefði ekkert getað komist ofar þar sem ég var með fremstu glímukonum landsins, tveimur brúnbeltingum. Svo keppti ég í opnum flokki líka og þar keppti ég um þriðja sætið en lenti í fjórða,“ segir Dagný og ekki ónýtur árangur það eftir aðeins ár með stífum æfingum.

Dagný segir að markmið hennar í keppnunum sé í raun ekki að komast á verðlaunapall, heldur sé hún að ögra sjálfri sér. Ég er að taka þátt því ég er svo rosalega feimin og er að reyna sigrast á feimninni. Ég er að skora á sjálfa mig til að losna við feimnina. Það er mitt höfuð markmið,“ útskýrir hún og bætir við að hún finni mikinn mun á sér nú þegar. „Þetta gengur alveg ágætlega, ég er svona aðeins að opna mig meira enda er erfitt og þreytandi að vera feimin.“

Fær útrás fyrir neikvæðar tilfinningar

Dagný er þriggja barna móðir og á eitt langveikt barn. Hún fer ekki leynt með það að daglega lífinu fylgi talsvert álag sem kalli fram alls konar tilfinningar. Íþróttina noti hún til að fá útrás fyrir þessar tilfinningar á heilbrigðan hátt. Þegar ég fer á æfingu er ég oft með uppsafnaðan pirring og reiði innra með mér. Á æfingunum losa ég um þessar tilfinningar, fær útrás fyrir þær og fer alltaf brosandi heim af æfingu. Ég næ algjörlega að losa allt stress og álag úr mér í þessu sporti og fer endurnærð að sofa á kvöldin,“ segir Dagný og bætir við að íþróttin sé auðvitað hin besta hreyfing líka.

„þetta auðvitað frábær hreyfing sem reynir á allan líkamann og byggir upp bæði úthald og styrk. Ef ég hefði kynnst þessu fyrr og þetta hefði verið til á Húsavík áður, þá hefði ég klárlega byrjað að æfa miklu fyrr.“

Dagný er með sykursýki 1 og eru veikindin heldur betur áskorun en hún lætur það ekki á sig fá og segir veikindin ekkert stoppa sig í bardagíþróttinni. „Það böggar mig ekkert. Ég er bara með mælinn með mér á æfingum og tek mér bara pásu ef ég fell í sykri og sit hjá í eina umferð. Ég læt mín veikindi mín ekki stoppa mig í að stunda mína íþrótt,“ segir Dagný og skorar á lokum á aðrar stelpur til að kynna sér íþróttina og skella sér á námskeið. Það sé nærandi fyrir sál og líkama.

 


Athugasemdir

Nýjast