01. maí, 2008 - 17:32
Fréttir
Efnahagsstjórn síðustu ríkisstjórna hefur byggst á athafnaleysi í skjóli mikillar þenslu og aukinnar skuldsetningar og nú blasa
afleiðingar við. Gengishrun, ofurvextir og verðbólga sem er allt að tvöfalt hærri en viðunandi er og stefnir enn hærra.
Þetta sagði Helgi Jónsson formaður Rafvirkjafélags Norðurlands m.a. en hann flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við
Eyjafjörð á hátíðardagskrá í Sjallanum í dag, 1. maí. Hann sagði jafnframt nauðsynlegt fyrir fólk að snúa
bökum saman, ná niður verðbólgunni, treysta velferðina og sameinast í þeirri kröfu að fátækt verði útrýmt í
einu ríkasta landi veraldar. Helgi sagði að verðlag á dagvöru væri hér 30-40% hærra en í nágrannalöndunum, við byggjum við
hæstu vexti í Evrópu og þó víða væri leitað. "Þessar aðstæður setja forsendur kjarasamninga og fjárhag heimilanna
í uppnám. Framfærsla til heimilisins hefur ekki lent í álíka hækkunum í áratugi. Við gerð kjarasamninga fyrir rétt
rúmum tveimur mánuðum vonuðumst allir til að hægt væri að renna styrkari stoðum undir stöðugleikann, en gleðin var skammvinn
því aðeins nokkrum dögum eftir að samningar voru samþykktir brast á kreppa. Ef heldur fram sem horfir eru engar líkur á að samningurinn haldi
þegar kemur að endurskoðun í febrúar á næsta ári. Það er alveg grátlegt að horfa á aðgerðarleysi
stjórnmálamannanna, það er eins og þeim komi þetta ekki við, og er hér með skorað á stjórnvöld að beita sér
harðar fyrir stöðugleika í verðlagsmálum," sagði Helgi. Hann sagði að svo virtist sem svo, að ríkisstjórnin ætlaði sér
að nota byggingar og verktakaiðnaðinn sem kælitæki fyrir efnahagslífið og spila þar af fullkomnu ábyrgðarleysi með fjárhag
tugþúsunda heimila sem alfarið byggi afkomu sína á störfum í þessum greinum. Þá sagði Helgi að því hafi verið
spáð að atvinnuleysi á almennum vinnumarkaði geti farið yfir 10% á næstu misserum og hrun verði í byggingariðnaði.
"Það er brýnt að grípa inn í atburðarrásina áður en það verður of seint. Það er ekki of seint. Með samstilltu
átaki getum við snúið þessari þróun við og náð verðbólgunni niður. Við megum ekki missa sjónar á þeim
styrkleika sem íslenskt efnahagslíf býr yfir og tímabært að allir leggi sitt af mörkum. Launafólk hefur tekið á sig sinn skerf,
nú er komið að fyrirtækjunum og stjórnvöldum. Eitt meginmarkmið nýgerðra kjarasamninga var að tryggja kaupmátt og stöðugleika
í efnahagsmálum og þar tók launafólk á sig mikla ábyrgð. Við hvetjum stjórnvöld, forsvarsmenn fyrirtækja og opinberra
stofnana að gæta að sér við verðhækkanir. Ef óðaverðbólga festist í sessi munu allir sitja eftir í verri stöðu en
áður. Það ætti því að vera kappsmál allra að ná tökum á verðbólgunni."
Helgi gerði jafnfréttismál að umtalsefni og sagði að jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til launa og starfa
værugrundvallarmannréttindi. Mikilvægasti áfanginn á þeirri leið undanfarin ár var fólginn í fæðingarorlofslögunum. En
sá stóri vandi að uppræta kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði er enn óleystur. Það er staðreynd. Afnám launaleyndar er
eitt af úrræðunum til að jafna kjör karla og kvenna. Á baráttudegi launafólks 1. maí leggjum við áherslu á að sóknin
er besta vörnin. Við eigum ekki að láta staðar numið fyrr en við höfum jafnað laun karla og kvenna í landinu, stórbætt kjör
aldraðra og öryrkja, bætt húsnæðiskerfið, heilbrigðisþjónustuna, stór aukið símenntun og eflt starfsmenntun. Forsenda þess
að þetta takist er samstillt átak allra samtaka launafólks - verkalýðshreyfingarinnar allrar," sagði Helgi ennfremur.