Inga Ásta Karlsdóttir og Birgir B. Svavarsson skrifa
Það er stefna Landsbankans að vera hreyfiafl í samfélaginu og koma atvinnulífinu af stað á ný. Með því að skapa vettvang fyrir nýsköpun á Norðurlandi eflum við frumkvöðlastarf og vöruþróun og samhliða aukast tækifæri í atvinnulífinu og fjölbreytni. Landsbankinn og Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur standa að Atvinnu- og nýsköpunarhelgum til að skapa vettvang fyrir nýsköpun og styðja við atvinnusköpun á hverju svæði fyrir sig. Helgina 24.-26. febrúar verður haldin Atvinnu- og nýsköpunarhelgi hér á Akureyri
Atvinnu- og nýsköpunarhelgarnar eru hugsaðar sem vettvangur til að virkja einstaklinga og frumkvöðla til athafna með því að leiðbeina þátttakendum um þróun og framvindu viðskiptahugmynda. Einnig til þess að gefa þátttakendum tækifæri til að skiptast á skoðunum og skapa tengsl við aðra þátttakendur og sérfræðinga. Sérfræðingar Landsbankans og Innovits veita ráðgjöf á þessum helgum sem og fjöldi frumkvöðla og annarra sérfræðinga.
Haldnar hafa verið þrjár slíkar helgar sem af er vetri; á Suðurnesjum, á Hornafirði og í Reykjavík. Unnið hefur verið að þróun fjölda viðskiptahugamynda undir handleiðslu ýmissa sérfræðinga .
Viðurkenningar verða veittar fyrir bestu hugmyndirnar í nokkrum flokkum. Í framhaldi geta þátttakendur haldið áfram að þróa sínar viðskiptahugmyndir og fengið til þess ráðgjöf frá Innovit og Landsbankanum með það að markmiði að sem flestar viðskiptahugmyndir verði að veruleika.
Við hvetjum alla, bæði þá sem eru með viðskiptahugmynd og þá sem hafa áhuga á að leggja sitt að mörkum við að fullmóta viðskiptahugmynd annarra, til að taka þátt. Enginn kostnaður fylgir þátttöku en skráning fer fram á www.anh.is . Þar er einnig hægt að nálgast dagskrá og nánari upplýsingar um Atvinnu- og nýsköpunarhelgina.
Höfundar eru útibússtjórar Landsbankans á Akureyri.