Efling sjúkraþjálfun opnar nýja starfsstöð í Kaupangi

Ásta Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri hjá Eflingu sjúkraþjálfun í nýju starfsstöðinni í Kaupangi    …
Ásta Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri hjá Eflingu sjúkraþjálfun í nýju starfsstöðinni í Kaupangi Mynd MÞÞ

Við munum leggja áherslu á þjálfun og meðhöndlun eldra fólks og fólks með vandamál tengd meðgöngu, mjaðmagrind og  grindarbotni,“ segir Ásta Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri Eflingar sjúkraþjálfunar en fyrirtækið hefurtekið í notkun nýja starfsstöð í Kaupangi. Húsnæðið er á 2. hæð í norðurenda en Efling keypti húsnæðið af Sjálfstæðisflokknum. Nýja stöðin er um 380 fermetrar að stærð og vel tækjum búin.

Ásta segir að á stöðinni séu ný styrktar- og æfingatæki frá HUR í Finnlandi en þau eru stillt með loftmótstöðu þannig að þeir sem nota þau geta stillt þyngd og fjölda endurtekninga á tölvuskjá. Að auki eru ýmis önnur tæki á nýju stöðinni sem er bæði björt og rúmgóð með frábæru útsýni úr æfingasalnum, en nýjum gluggum var bætt við norðurgafl hússins. Þá var lyftu einnig komið fyrir í húsinu og er inngangur í hana frá bílastæði vestan við Kaupang, en aðalinngangur er í göngum milli húsa, við hlið Blómabúðar Akureyrar.

 

Hóptímar verða í boði 

 

Góð aðstaða er til hópþjálfunar og segir Ásta stefnt að því að bjóða ýmsa hóptíma í framtíðinni þar sem m.a. verður lögð áhersla á jafnvægi, gönguþjálfun, styrk, þol, liðleika, færni, jóga og slökun. „Þörfin fyrir sjúkraþjálfun er mikil og á sennilega bara eftir að aukast í framtíðinni í takt við öldrun þjóðarinnar,“ segir hún. 

Alls munu 6 sjúkraþjálfarar starfa til að byrja með á nýjustöðinni, en auk Ástu verða þar þau

Hannes Bjarni Hannesson, Soffía Einarsdóttir, Sævar Þór Sævarsson, Vébjörn Fivelstad og Þóra Hlynsdóttir.

 

Áfram í miðbænum

 

Starfsemi Eflingar verður áfram í Hafnarstræti 97 og verða einhverjir sjúkraþjálfarar á báðum stöðum. „Þetta er  góð viðbót við okkar rótgrónu stöð í miðbænum,“ segir Ásta. „Það er gott að geta komið til móts við fólk sem á erfitt með gang en bílastæði eru allt í kringum húsið.

Það verður gaman að þróa þessa stöð með viðskiptavinum okkar og við munum koma til móts við þeirra þarfir eftir bestu getu,“ segir hún er alls starfa 22 hjá Eflingu sjúkraþjálfun um þessar mundir, þar af 19 sjúkraþjálfarar.

 


Athugasemdir

Nýjast