Um næstu mánaðamót verða þær breytingar í innanlandsfluginu að dýrara verður t.d. að fljúga frá Reykjavík til Akureyrar en frá Akureyri til Reykjavíkur. Ástæðan er sú að frá 1. apríl verða farþegagjöld sem Isavia innheimtir af farþegum mismunandi eftir flugvöllum. Það mun kosta 850 krónur fyrir farþega að fara frá Reykjavík en 498 krónur að fara frá Akureyri og öðrum flugvöllum á landinu. Samkvæmt upplýsingum Friðþórs Eydal talsmanns Isavia, er innanlandsflugvallakerfi landsins rekið í samræmi við þjónustusamning innanríkisráðuneytisins og Isavia. Stefna hefur verið mörkuð um að rekstur Reykjavíkurflugvallar verði að mestu leyti sjálfbær en ríkisstuðningi fremur veitt til flugvalla á landsbyggðinni. Reykjavíkurflugvöllur er langstærsti flugvöllurinn í flugvallakerfinu og rekstur hans miklu umsvifameiri en t.d. rekstur Akureyrarflugvallar, segir Friðþór.
Þetta mál var til umfjöllunar á Alþingi á dögunum, þar sem fram kom hjá Einari K. Guðfinnssyni að hækkanir gjalda á umferð um flugvelli myndu valda auknum byrðum á innanlandsflug og farþega þess. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði við umræðuna að ná yrði inn meiri tekjum til að geta sinnt eðlilegu viðhaldi á flugvöllum. Hins vegar þyrfti að hafa augum opin fyrir áhrifum aukinnar gjaldtöku á flugið.