Dýpkunarframkvæmdir í Húsavíkurhöfn: Ekkert til ráða nema að sprengja

Myndin tengist ekki fréttinni beint. Mynd úr safni/epe
Myndin tengist ekki fréttinni beint. Mynd úr safni/epe

- Gamla fréttin er úr Degi, 21. ágúst 1992

Í gær var fundur í hafnarstjórn Húsavíkurkaupstaðar þar sem dýpkunarframkvæmdir í Húsavíkurhöfn voru ræddar í ljósi þeirra rannsókna er gerðar voru daginn áður. „Menn telja nú að botninn sé ógræfur að stórum hluta með þeim tækjum sem eru á staðnum og eru í eigu undirverktakans Dýpkunar hf. Talið er að ekkert sé annað til ráða en að sprengja til að ná því efni sem þarf að fjarlægja," segir Einar Njálsson, bæjarstjóri Húsavíkur.

Einar segir að 75% af svæðinu, sem fyrirhugað var að dýpka, sé óvinnandi vegna hörku. 25% er hægt að grafa að einhverju marki, en hvergi er hægt að fara niður á það dýpi sem fyrirhugað var með greftrinum.

„Af skýrslum jarðfræðinga var vitað að í Húsavíkurhöfn gæti verið erfiður botn, en á óvart kemur að hörðu berglögin skuli vera svo ofarlega.

„Í dag kl. 8,30 á ég fund með starfsmönnum Vita- og hafnamálaskrifstofu. Þar munum við fara yfir öll gögn. í framhaldi viðræðna vænti ég þess að lagðar verði fram tillögur eða yfirlit yfir þá valkosti sem við höfum í stöðunni. Síðar í dag mun ég kynna samgönguráðherra stöðu málsins í ljósi tillagna starfsmanna Vita og hafnamálaskrifstofu,“ sagði Einar Njálsson og bætti við: „Húsvíkingar telja að upplýsingar um botninn hefðu getað legið fyrir fyrr, ef að þau tæki sem áttu að vinna verkið hefðu verið í lagi í upphafi verks. Ekki viljum við hleypa illsku í málið, en miklu hefði munað fyrir Húsavíkurkaupstað, ef fengnar upplýsingar hefðu legið fyrir í júnímánuði, en ekki nú í lok ágúst. Af hálfu hafnarstjórnar er lögð mjög þung áhersla á að í haust verði haldið áfram með verkið, því dýpkun ræður úrslitum um notagildi hafnarinnar.“

Nýjast