Dularfullar mannaferðir við heimili fólks á Akureyri?

Miðbærinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Miðbærinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Dularfullar mannaferðir eru við heimili fólks á Akureyri, ef marka má umræðu á samskiptavefnum Facebook. Þar er talað um að tekið hafi verið í  hurðarhúna á útidyrum og að sést hafi til manna að kíkja inn um hurðir og glugga, jafnvel þótt að fólk sé heima. Gunnar Jóhannesson lögreglufulltrúi á Akureyri, segir að lögreglan hafi ekki fengið fregnir af dularfullum mannaferðum að undanförnu. Ekki sé um neinn faraldur að ræða en þó hafi borist tilkynning um að maður hafi verið að snuðra við bíla í gærkvöld.

“Það hefur ekki verið tilkynnt um innbrot í hús eða bíla að undanförnu en þó hafa komið upp mál, þar sem farið hefur verið inn í ólæst hús og bíla. Það er því full ástæða til að ítreka það að fólk læsi, því við fáum á hverju ári fjölmörg tilfelli, þar sem ólæstir bílar með lyklum í eru teknir og eins er farið inn í ólæst hús,” segir Gunnar.

Á Facebook er nefnt dæmi þar sem einn var að kíkja inn um útihurð og varð sá hinn sami var við að húsráðandi horfði á móti. Þá forðaði sá óboðni sér á hlaupum.

Nýjast