Draumurinn að ferðast um eigið land

Húsavík. Mynd/Húsavíkurstofa
Húsavík. Mynd/Húsavíkurstofa

Síðasta sumar var ólíkt öllum öðrum vegna ástæðu sem allir þekkja. Íslendingar nýttu sér í mun meira mæli áfangastaði innanlands og þá þjónustu sem er í boði um landið okkar allt en þeir hafa gert áður. Samsetning ferðafólks var þannig, með tilliti til þjóðernis, ólík því sem ferðaþjónustuaðilar hafa átt að venjast.

Silja Jóhannesdóttir

Uppbygging íslenskrar ferðaþjónustu á undanförnum árum hefur verið gríðarleg og í dag er afar áhugaverð afþreying í boði um allt land, fjölbreytt gisting og úrvals veitingastaðir. Stjórn Húsavíkurstofu telur afar jákvætt að Íslendingar hafi nýtt sér þessa uppbyggingu þrátt fyrir að það hafi komið til vegna miður skemmtilegra aðstæðna.

Um daginn var skrifað um hegðun íslensks ferðafólks þar sem var dregin upp dökk mynd af hegðun þeirra í garð starfsfólks í þjónustu. Vissulega eru alltaf einhverjir í hópi ferðafólks sem virðist ekki kunna almennt góða hegðun og sýna á sér verstu hliðar í samskiptum við starfsfólk í þjónustu. Um þennan hóp má þó ekki alhæfa frekar en aðra og upplifun ferðaþjónustunnar er misjöfn af síðasta sumri.

Margir ferðaþjónustuaðilar segja frá íslensku ferðafólki sem sýndi uppbyggingunni mikinn áhuga og var agndofa yfir öllu því sem Ísland hefur upp á að bjóða og þeirri þjónustu sem er tiltæk í dag. Slíkt er afar mikilvægt til framtíðar fyrir ferðaþjónustuna því ánægt íslenskt ferðafólk segir vafalaust erlendum vinum og ættingjum frá því hvað er í boði hér á landi og er í kjölfarið jákvæðara og opnara gagnvart ferðaþjónustu almennt. Þannig mun síðasta sumar og að öllum líkindum sumarið sem er í vændum leggja af mörkum hvað varðar lífræna markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar fyrir erlenda ferðamenn.

Sú staðreynd að Íslendingar streymdu út á land síðasta sumar gerði það að verkum að margir ferðaþjónustuaðilar héldu velli í Covid storminum sem geisaði, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir þessa risastóru atvinnugrein til framtíðar og það ber að þakka

Stjórn Húsavíkurstofu fagnar þeim straumi íslensks ferðafólks sem lagði land undir fót síðasta sumar og er vongóð að sumarið í ár verði jafn gjöfult hvað það varðar þó vissulega standi vonir til þess að hópurinn verði fjölþjóðlegri þetta árið öllum til framdráttar.

Silja Jóhannesdóttir

F.h. Stjórnar Húsavíkurstofu


Athugasemdir

Nýjast