Á undanförnum árum hefur Draugagöngu Minjasafnsins og Leikfélags Akureyrar vaxið fiskur um hrygg og því verður brugðið á það ráð í ár að breyta fyrirkomulagi þessa vinsæla viðburðar. Ekki er því um eiginlega göngu með leiðsögn að ræða heldur slóð sem fólkið fylgir á sínum eigin hraða. Sögumenn verða í Minjasafnsgarðinum, við Friðbjarnarhús og við Gamla spítalann auk þess sem Laxdalshús verður gert draugalegt. Í Samkomuhúsinu verður sögustund með draugalegu ívafi að hætti leikhúsfólks kl 22:30, 23:00 og 23:30. Síðast en ekki síst verður draugalegt um að litast á Minjasafninu frá kl 22:00 - 24:00 en safnið er einnig opið frá kl 10-17. Enginn aðgangseyrir er að safninu í tilefni dagsins.
Draugaslóðin er að þessu sinni meðal annars mönnuð af sjálfboðaliðum úr Leikfélagi Hörgdæla og öðrum áhugasömum velunnurum Minjasafnins á Akureyri.