Draga breytingar til baka
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að draga til baka þær breytingar sem snúa að tekjuviðmiðum í reglum um sérstakar húsaleigubætur, sem samþykktar voru á fundi bæjarstjórnar 15. mars sl. Eins og DV greindi frá voru yfir 100 bótaþegar á Akureyri sem misstu rétt sinn til sérstakra húsaleigubóta í byrjun maí þegar nýjar reglur sveitarfélagsins um bæturnar tóku gildi. Breytingin hafði nánast eingöngu áhrif á greiðslur til öryrkja í bænum. Formaður velferðarráðs Akureyrarbæjar harmaði að breytingin hafi haft áhrif á svo stóran hóp og sagði hana verða endurskoðaða sem nú hefur verið gert.