Undanfarin sumur hefur verið áhugi meðal erlendra einstaklinga sem starfa í ferðaþjónustu á Húsavík yfir sumartímann á að læra íslensku. Þekkingarnet Þingeyinga hefur fylgst vel með þessum áhuga og reglulega kannað möguleikann á því að setja saman íslenskunámskeið fyrir þessa einstaklinga. Hingað til hefur þó ekki tekist að fá nægan fjölda þátttakenda til að af því geti orðið.
Nú er annað uppi á teningnum. Þekkingarnetið stóð í síðustu viku fyrir kynningarfundi og eins og kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar var tilgangurinn að kanna eftirspurnina. Áhuginn var framar öllum vonum. Fullt var út úr dyrum á fundinum og var tekið við umsóknum í tvo 15 manna hópa og komust færri að en vildu.
Dóra Ármannsdóttir, íslenskukennari og fyrrverandi skólameistari FSH var ráðin til að taka að sér kennsluna og hófst fyrsta kennslustund á fimmtudag sl.. kennt verður þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag á kvöldin og standa námskeiðin í 5 vikur.