Það mun einsdæmi að þessi nefnd, eða sambærilegar nefndir, sendi frá sér slíka greinargerð en augljóst er af því hversu harðorð greinargerðin er, að dómnefndarmönnum hefur verið freklega misboðið. Greinargerin er birt hér að neðan í heild sinni:
GREINARGERÐ dómnefndar skv. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Nokkur umræða hefur að undanförnu skapast vegna veitingar embættis héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vék sæti en Árni Mathiesen fjármálaráðherra var settur dómsmálaráðherra í hans stað til að skipa í embættið. Hann skipaði Þorstein Davíðsson héraðsdómara 20. desember 2007, þvert gegn rökstuddri umsögn dómnefndar skv. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sem taldi þrjá aðra umsækjendur mun hæfari. Þótt umsögnin bindi ekki hendur ráðherra eru engin fordæmi fyrir því að svo verulega hafi verið gengið á svig við álit dómnefndar, sem skipuð er eftir tilnefningum Hæstaréttar Íslands, Dómarafélags Íslands og Lögmannafélags Íslands og hefur það lögbundna hlutverk að láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara. Dómnefndinni þykir rétt að koma á framfæri sjónarmiðum sínum af þessu óvenjulega tilefni. Þau snerta á engan hátt persónu þess einstaklings sem að þessu sinni hlaut skipun í embætti héraðsdómara og dómnefndin óskar að sjálfsögðu farsældar í vandasömum störfum. Þegar lög nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði voru sett var það nýmæli tekið upp að sérstök dómnefnd skyldi fjalla um umsóknir um embætti héraðsdómara svo að dómsmálaráðherra væri betur í stakk búinn en áður til að skipa í dómaraembætti á grundvelli faglegra sjónarmiða eingöngu. Í athugasemdum með frumvarpi til aðskilnaðarlaga kom skýrt fram að þessi nýja tilhögun hefði þann megintilgang „að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins.“ Þáverandi dómsmálaráðherra bætti um betur við umræður á Alþingi 15. desember 1988 og taldi nýmælið einnig til þess fallið „að auka traust almennings á því að dómarar séu valdir samkvæmt hæfni einvörðungu.“ Þetta ákvæði um dómnefnd var síðar tekið upp í núgildandi dómstólalög nr. 15/1998. Um störf dómnefndarinnar gilda auk 12. gr. dómstólalaga reglur nr. 693/1999. Í 5. gr. þeirra er sú skylda lögð á nefndina að setja fram í skriflegri umsögn um umsækjendur annars vegar rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda og hins vegar rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telji hæfasta og eftir atvikum láta koma fram samanburð og röðun á umsækjendum eftir hæfni. Í 7. gr. reglnanna kemur fram að umsögn nefndarinnar sé ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara. Þá hefur nefndin í samræmi við heimild í 4. gr. reglnanna sett sér ákveðnar verklagsreglur við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara, sem dómsmálaráðherra staðfesti 23. mars 2001. Þar eru tilgreind ýmis atriði, sem hafa ber til hliðsjónar við matið, svo sem starfsreynsla, fræðileg þekking, almenn og sérstök starfshæfni auk formlegra skilyrða. Dómnefnd hefur haft þann háttinn á um árabil, sem athugasemdir hafa aldrei verið gerðar við, að skipa umsækjendum í lok rökstuðnings í fjóra flokka: Ekki hæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur. Þá hefur nefndin ýmist raðað hinum hæfustu í töluröð eða talið tvo eða þrjá hæfasta án þess að ástæða hafi verið talin til að gera upp á milli þeirra. Faglegt mat dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hlýtur öðru fremur að taka mið af hlutlægum mælikvörðum þótt orðstír umsækjenda í námi, störfum og fræðiiðkunum hafi óhjákvæmilega áhrif á matið, sem er heildarmat á ferli umsækjenda. Dómnefnd skipaði að þessu sinni fimm umsækjendum í tvo flokka af fjórum. Í efsta flokki voru þeir Guðmundur Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, Halldór Björnsson aðstoðarmaður hæstaréttardómara og Pétur Dam Leifsson lektor og taldi dómnefnd þá mjög vel hæfa til að gegna dómaraembætti. Enginn umsækjenda var settur í flokkinn vel hæfur en hina tvo umsækjendurna setti dómnefnd í þriðja flokkinn og taldi þá hæfa til að gegna embætti héraðsdómara. Sá sem hlaut skipun, Þorsteinn Davíðsson, var annar þeirra. Settur dómsmálaráðherra hefur að beiðni tveggja úr hópi þeirra þriggja umsækjenda, sem dómnefnd taldi standa mun framar hinum nýskipaða héraðsdómara, látið í té rökstuðning fyrir ákvörðun sinni. Það er lokaniðurstaða ráðherra „að fjölbreytt reynsla Þorsteins og þekking, ekki síst vegna starfa sem aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra um rúmlega fjögurra ára skeið, geri það að verkum að hann sé hæfastur umsækjenda um embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra.“ Athygli vekur að engin tilraun er gerð til að rökstyðja hvers vegna þau atriði, sem ráðherra tilgreinir sérstaklega á ferli Þorsteins og dómnefnd hefur lagt mat á, eigi að vega þyngra í mati á hæfni umsækjenda en allt það, sem hinir umsækjendurnir hafa til brunns að bera. Þannig er til dæmis ekki minnst á 35 ára starfsferil eins umsækjanda, sem allur tengist dómstólum, bæði héraðsdómstólum og Hæstarétti, eða margra ára framhaldsnám annars umsækjanda í lögfræði við erlenda háskóla þar sem hann uppskar tvær meistaragráður. Þá verður að setja sérstakan fyrirvara við þá ályktun ráðherra, sem ekki verður dregin af umsóknargögnum, að Þorsteinn „eigi auðvelt með að setja fram skýran lögfræðilegan texta.“ Um þetta sagði í umsögn dómnefndar um Þorstein: „Umsækjandi hefur ekki lagt fram höfundarverk af einhverju tagi svo að meta megi tök hans á íslensku máli og rökhugsun við úrlausn vandasamra lögfræðilegra verkefna og hefur hann ekki bætt úr þessu frá fyrri umsókn sinni um dómaraembætti.“ Í þau sextán ár, sem dómnefnd hefur verið að verki vegna umsókna um störf héraðsdómara, hafa dómsmálaráðherrar fram að þessu iðulega virt rökstudda niðurstöðu nefndarinnar þótt þeir hafi ekki ævinlega valið þann umsækjanda, sem dómnefnd setti í fyrsta sæti, ef slíkri röðun var beitt, heldur valið annan úr hópi þeirra, sem taldir voru hæfastir. Við það er að sjálfsögðu ekkert að athuga enda er umsögn nefndarinnar ætlað að fela í sér faglega ráðgjöf án þess þó að binda hendur veitingarvaldsins. Eins og tilgangi með tilvist dómnefndar af þessu tagi er háttað er hins vegar óhjákvæmilegt að ætla að veitingarvaldinu séu einhver takmörk sett við val sitt, að minnsta kosti með hliðsjón af góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og raunar ekki síður sjálfstæði dómstólanna. Dómnefndin telur að settur dómsmálaráðherra hafi við skipun í embætti héraðsdómara nú farið langt út fyrir slík mörk og tekið ómálefnalega ákvörðun, sem er einsdæmi frá því að sú tilhögun var tekin upp að sérstök nefnd legði rökstutt hæfnismat á umsækjendur. Með þessari ákvörðun hefur ráðherra ekki aðeins vegið að starfsheiðri og tilverugrundvelli dómnefndarinnar heldur einnig gengið í berhögg við það yfirlýsta markmið með stofnun hennar á sínum tíma að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins og einvörðungu valdir samkvæmt hæfni. Þegar jafn óvönduð stjórnsýsla og nú er raunin er viðhöfð við veitingu dómaraembættis kemur vissulega til greina að dómnefndin leggi niður störf enda er ljóst að ráðherra metur verk hennar einskis. Í trausti þess að ákvörðun hins setta dómsmálaráðherra verði áfram einsdæmi við veitingu dómaraembætta mun dómnefndin hins vegar ekki velja þann kost, enda er starf hennar lögbundið og hefur jafnan verið metið að verðleikum með þessari einu undantekningu. Lára V. Júlíusdóttir, sem er aðalmaður í dómnefndinni og vék sæti í þessu máli, er samþykk greinargerðinni. 9. janúar 2008. Pétur Kr. Hafstein formaður, Eggert Óskarsson aðalmaður, Bjarni S. Ásgeirsson varamaður. Sent: Dómsmálaráðherra, Fjármálaráðherra, Hæstiréttur Íslands, Dómarafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Fjölmiðlar.