Dekkjakurlið burt fyrir áramót
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur lagt fram samhljóða álit þess efnis að Alþingi álykti að fela umhverfis- og auðlindaráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun að móta áætlun sem miði að því að kurluðu dekkjagúmmíi verði skipt út fyrir hættuminni efni á leik- og íþróttavöllum. Því verki verði lokið fyrir árslok 2016. Morgunblaðið segir frá þessu í dag.
Þá kemur fram í greinargerð með tillögunni að ætlunin er að girða eins hratt og unnt er fyrir notkun eitraðra og ef til vill heilsuspillandi efna á svæðum sem börn nota, m.a. til íþróttaiðkunar. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að tafarlaust sé gripið til aðgerða í þeim efnum. Það er ekki réttlætanlegt að heilsu og öryggi barna sé teflt í hættu á meðan beðið sé óyggjandi sannana á skaðsemi efnanna samkvæmt greinagerðinni.
Á fundum nefndarinnar hefur verið rætt að vernda eigi börn og ungmenni sem nota gervigrasvelli hérlendis til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Börnin eigi alltaf að njóta vafans hvað varðar þau efni sem notuð eru á vellina. Fjölmargir gestir komu á fund nefndarinnar vegna málsins og tóku þeir allir undir þessi sjónarmið. /epe.