Deildarmeistararnir taka á móti Íslandsmeisturunum í kvöld

Akureyri leikur sinn fyrsta heimaleik í kvöld í N1-deild karla en þá mæta deildarmeistararnir Íslandsmeisturum FH í Höllinni kl. 19:00. Akureyringar hófu deildina með látum er liðið lagði Aftureldingu að velli í Varmá með ellefu marka mun sl. mánudag, þar sem lokatölur urðu 20:31. FH-ingar hófu hins vegar tímabilið með tapi en liðið lá á heimavelli gegn Fram á sama tíma, 23-28.

„Þeir eru samt með hörkulið og þetta verður alvöru leikur í kvöld,“ segir Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar er Vikudagur fékk hann til að rýna í leikinn í kvöld. „Ég held að það gæti tekið FH-liðið smá tíma að slípa sig saman en þeir hitta pottþétt á einn og einn leik á milli en vonandi ekki í kvöld. Ég held að þeir verði svakalega sterkir eftir áramót,“ segir Heimir, sem verður þó fjarri góðu gamni í kvöld vegna meiðsla.

Norðanmaðurinn Baldvin Þorsteinsson fyrirliði FH á von á hörkuleik í kvöld. „Það er ljóst að við þurfum að bæta okkar leik til að eiga möguleika á sigri. Akureyri er með frábært lið og þetta verður klárlega mjög erfitt en okkur hlakkar bara til,“ segir Baldvin, en nánari upphitun fyrir leikinn í kvöld verður í Vikudegi í dag.

Nýjast