Prímadagar - Danshátíð er samvinnuverkefni Príma danshópsins og Ungmennahússins á Akureyri og fer fram helgina 31. mars -1. apríl. Dansæði virðist hafa gripið fólk á Akureyri sem annarsstaðar.
Þessi keppni mun vera eina Freestyle danskeppnin á landinu utan höfuðborgarsvæðisins og fer hún fram í Menntaskólanum á Akureyri laugardaginn 31. mars kl. 18.00. Keppt verður í: Prima 1: 14-16 ára, Prima 2: 17 -20 ára og Prima 3: 21+. Einstaklings-, dúett- og hópaflokkar (3 - 8 manns) eru í öllum aldursflokkum. Dómarar eru meðal annarra Sigyn Blöndal og Brogan Davisson dansarar.
Markmið félagsins er að efla dansáhuga Menntskælinga og Akureyringa almennt. Miðpunktur starfsins er að koma fram á Árshátíð MA og í ár tóku 86 manns þátt í atriðinu. Þetta er í þriðja sinn sem Danshópurinn Príma heldur Prímabikarinn og vonast félagið til að þetta verði árlegur viðburður. Aðalstyrktaraðili verkefnisins er Menningarráð Eyþings.