Danshátíð á Akureyri um næstu mánaðamót

Freestyle danskeppnin verður haldin í Menntaskólanum á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Freestyle danskeppnin verður haldin í Menntaskólanum á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Prímadagar - Danshátíð er samvinnuverkefni Príma danshópsins og Ungmennahússins á Akureyri og fer fram helgina 31. mars -1. apríl. Aðalstyrktaraðili verkefnisins er Menningarráð Eyþings. Dansæði virðist hafa gripið fólk á Akureyri sem annarsstaðar. Kannski ekki að furða þar sem dans er félagsleg athöfn og frábær hreyfing. Boðið verður upp á sannkallaða dansveislu, námskeið og keppni, fyrir dansáhugafólk af öllu landinu. Markmið verkefnisins “Primadagar - Danshátíð" er tvíþætt. Annarsvegar að fá norður fagfólk til að vera með námskeið og hinsvegar að skapa tækifæri og skemmtilegan vettvang fyrir unga dansara til að láta ljós sitt skína í danskeppni. Sú keppni mun vera eina Freestyle danskeppnin á landinu utan höfuðborgarsvæðisins og fer hún fram í Menntaskólanum á Akureyri.

Freestyle danskeppnin PRÍMABIKARINN fer fram laugardaginn 31. mars kl 18:00 í Menntaskólanum á Akureyri. Keppt verður í:

Prima 1:  14-16 ára
Prima 2:  17 -20 ára
Prima 3:  21+
Einstaklings, dúett og hópaflokkar (3 - 8 manns) eru í öllum aldursflokkum. Dómarar eru meðal annarra Sigyn Blöndal og Brogan Davisson dansarar.

Margvísleg námskeið verða í boði á Danshátíðinni svo sem Magadans, Body Awareness og fleiri og á sama tíma fer fram Kúbverskt Salsa Workshop í bænum. Danshópurinn Príma var stofnaður haustið 2001 og er félag innan veggja Menntaskólans á Akureyri. Meðlimir félagsins eru yfir 100 talsins, dansarar og áhugafólk um dans. Markmið félagsins er að efla dansáhuga Menntskælinga og Akureyringa almennt. Miðpunktur starfsins er að koma fram á Árshátíð MA og í ár tóku 86 manns þátt í atriðinu. Þetta er í þriðja sinn sem Danshópurinn Príma heldur Prímabikarinn og vonast félagið til að þetta verði árlegur viðburður.

Ungmenna- Húsið, upplýsinga- og menningarmiðstöð á Akureyri er fyrir 16 ára og eldri og er staðsett í Rósenborg. Markmið Ungmenna-hússins er að vera leiðandi í jákvæðu starfi ungs fólks á Akureyri og bjóða upp á heilbrigða afþreyingu. Ungmenna-húsið býður upp á innihaldsríka og uppbyggilega starfsemi á sviðum menningar, lista og fræðslu og hefur til þess frábæra aðstöðu.  Ungmenna-húsið styður við bakið á ungu fólki með því að aðstoða þau við vinnu að verkefnum eins og Prímadagar-Danshátíð.

 

Nýjast