Dalvíkurbyggð að fyllast af fólki
Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er haldinn hátíðleg í Dalvíkurbyggð um næstu helgi . Fiskverkendur og fleiri framtakssamir í byggðarlaginu bjóða, með hjálp góðra styrktaraðila, landsmönnum öllum upp á dýrindis fiskrétti, milli kl. 11:00 og 17:00 á laugardeginum.
Nú sem endranær búast skipuleggjendur hátíðarinnar við miklum fjölda gesta. „Af því að við erum ekki að selja neina miða þá vitum við aldrei nákvæmlega hvað kemur mikið af fólki, en miðað við öll merki sem við höfum og þann fjölda sem er nú þegar kominn sem og fyrirspurnum sem við erum að fá, þá reiknum við með svipuðum fjölda og verið hefur. Vegagerðin taldi að það hafi verið um 26 þúsund manns í fyrra og við búumst bara við því sama í ár, eða á bilinu 25-30 þúsund,“ segir Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla og bætir við: „Fyrstu gestir voru komnir fyrir verslunarmannahelgi en svo á mánudag var ótrúlega mikill fjöldi mættur.“
Vikan áður en hátíðin hefst formlega er af heimamönnum og brottfluttum kölluð Fiskidagsaðventa. „Það er svona ákveðin stemmning í bænum varðandi hana, menn eru að skreyta, græja og undirbúa og það er ýmislegt um að vera alla vikuna,“ segir Júlíus.
Mikið af kræsingum
Matseðilinn breytist ár frá ári þó ávallt sé boðið upp á ákveðna vinsæla rétti. Öllum réttum fylgja brauð og drykkir eins og hver getur í sig látið. Klukkan 18 á föstudag er hátíðin Fiskidagurinn mikli formlega sett. Í kjölfarið flytur nýkjörinn forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson vináttukeðjuræðuna. Vináttukeðjan er hugljúf dagskrá á sviði við kirkjuna, þar er tónlist, skemmtun, vináttukeðjuræðan og risaknús í lokin til að leggja línurnar fyrir helgina.
Á föstudagskvöldinu bjóða íbúar byggðalagsins gestum og gangandi upp á fiskisúpu í heimahúsum og görðum. Afar vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá prýðir hátíðina ár hvert. Markmið hátíðarinnar er að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk.
Einstök fiskasýning
Dagskrá Fiskidagsins mikla er ávallt fjölbreytt en meðal þess sem aldrei klikkar er fiskasýningin. S.l fjórtán ár hefur Skarphéðinn Ásbjörnsson sett upp einstaka fiskasýningu, þar sem sýndir hafa verið rétt um 200 ferskir fiskar. Það má segja að Skarphéðinn, vinir og kunningjar og góðar áhafnir séu stóran hluta úr árinu að safna. Vinnan við þessa sýningu er mikil og ómetanleg. Alltaf hefur verið sýndur hákarl og verður hann að venju skorinn í beitur kl 15.00 og er þessi liður í umsjá þeirra feðga Reimars Þorleifssonar og Gunnar Reimarssonar.
Í dagskrá helgarinnar má m.a. finna:
KK - Latibær - Fornbílar - Hulda Björk Garðarsdóttir - Jónína Björt - Kragaháfur einn sjaldgæfasti fiskur heims - Sylvia Erla - Stærsta pitsa landsins - Vefarinn – Knattspyrna - Jóhanna Guðrún - Halla hrekkjusvín - Solla Stirða - Íþróttaálfurinn - Matti Matt - BMX brós - Brúðubíllinn - Selma Björns - Fiskidagsdansinn - Eyþór Ingi Gunnlaugsson - Séra Oddur Bjarni - Salka kvennakór - Filsur - Friðrik Ómar - Stórhljómsveit RIGG viðburða - Íris og Snorri - Fish and Chips - Regína Ósk - Indian curry Hut - Stefán Jakobsson - Dagur Sigurðsson - Karlakór Dalvíkur - Leikhópurinn "Næsta leikrit" - Helena Eyjólfsdóttir - Laddi - Inga Magga og Eva - Varðskip - Stórkokkar -Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar - Teikniveröld - Litaland - Blítt og létt hópurinn - Brekku/vináttukeðjusöngur - Salka Sól - Kajakar- Siglingar - Gissur Páll Gissuararson - Teigabandið - Lotta - Fiskborgarar - Dagur Atlason - Dagur Halldórsson, Hans Friðrik, Hjörvar Óli Sigurðsson - Aron Birkir - Verðlaun- Risaknús - Synir og fjölskylda Rúnars Júlíussonar - Ragnar Hólm - Súpukvöldið - FLUGELDAsýning og .....allt hitt.
Á laugardagskvöldinu býður Samherji til stórtónleika með stórskotaliði landsins í tónlistarflutningi og risaflugeldasýning á eftir.
Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri hátíðarinnar er bjartsýnn á að veðurguðirnir verði í góðu skapi um helgina. „Veður setur ekki strik í reikninginn hjá okkur og hefur aldrei gert, en það er dásamleg spá,“ segir hann og bætir við með áherslu: „Og það verður gott veður!“
-epe