Dalvík/Reynir í öðru sæti D- riðils

Dalvík/Reynir gerði góða ferð til Vopnafjarðar er liðið lagði Einherja að velli í D- riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöld. Lokatölur á Vopnafjarðarvelli urðu 2-1 sigur Dalvíkur/Reynis. Mörk gestanna í leiknum skoruðu þeir Viktor Már Jónasson og Guðmundur Kristinn Kristinsson.

Í gærkvöld sótti Draupnir Völsung heim á Húsavík þar sem heimamenn höfðu betur og unnu 7-3. Víðir Jónsson skoraði tvívegis fyrir Draupni í leiknum og Gunnar Þórir Björnsson skoraði eitt mark.

Dalvík/Reynir vann einnig stórsigur á liði Leiknis F. er liðin mættust á Dalvíkurvelli sl. fimmtudag. Lokatölur leiksins urðu 5-0 sigur Dalvíkur/Reynis. Viktor Már Jónasson skoraði tvívegis fyrir heimamenn í leiknum og þeir Jón Örvar Eiríksson, Kristinn Þór Björnsson og Hilmar Daníelsson skoruðu sitt markið hver.

Þá gerðu Draupnir og Einherji 3-3 jafntefli er liðin mættust í Boganum sl. laugardag. Mörk Draupnis í leiknum skoruðu þeir Ægir Svanholt Reynisson, Ólafur Jóhann Magnússon og Sveinn Orri Vatnsdal Sveinsson.

Eftir 13. umferðir er Dalvík/Reynir í öðru sæti riðilsins með 22 stig en Draupnir er í fimmta sætinu með átta stig.

Nýjast