Dalvík/Reynir áfram í öðru sæti deildarinnar

Spennan í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu heldur áfram eftir leiki sl. helgar og gefur Dalvík/Reynir ekkert eftir í þeirri baráttu. Liðið er áfram í öðru sæti deildarinnar með 35 stig, stigi á eftir toppliði Tindastóls/Hvöt, eftir 2:0 sigur gegn Hamar á heimavelli um helgina.

Það voru þeir Hermann Albertsson og Gunnar Már Magnússon sem tryggðu norðanmönnum mikilvæg þrjú stig með marki í sitthvorum hálfleiknum.

Það verður toppslagur í næstu umferð á laugardaginn kemur þegar tvö efstu lið deildarinnar, Tindastóll/Hvöt og Dalvík/Reynir, mætast á Blönduósarvelli. Enn eiga öll efstu níu lið deildarinnar tölfræðilega möguleika á að komast upp um deild þegar þrjár umferðir eru eftir.

Nýjast