Næstkomandi sunnudag, þann 22. janúar, munu öll helstu skíðasvæði landsins, ásamt Skíðasamband Íslands og skíðafélögunum, taka höndum saman í átaki Alþjóða skíðasambandsins, FIS, um að tileinka einn dag á vetri hvatningu til aukinnar skíðaiðkunnar barna undir yfirskriftinni, Snjór um víða veröld. Af þessu tilefni verður ókeypis á skíðasvæðin í Hlíðarfjalli, Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Stafdal og Oddsskarði, fyrir 12 ára og yngri þennan dag.
Þórunn Sif Harðardóttir, framkvæmdastjóri SKÍ, segir að þrátt fyrir að átakið beinist sérstaklega að skíða- og brettaiðkun barna, þá sé það almenn hvatning til fjölskyldna landsins um að nýta sér frábærar aðstæður skíðasvæðanna og njóta hollrar vetrarútivistar.
Við viljum alltaf sjá fleiri börn og unglinga á skíðum og það skiptir miklu um að halda skíðaíþróttinni við, segir Þórunn.