Það verður mikið um dýrðir í Hofi í dag, laugardaginn 3. mars nk., þar sem Dagur tónlistarskólanna verður haldinn hátíðlegur, með hljóðfærakynningu og fjölda tónleika. Kolbrún Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri, segir að það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Dagskráin hófst nú kl. 10 og stendur fram til kl. 17.00 og er aðgangur ókeypis. Þetta er í annað sinn sem Dagur tónlistarskólanna er haldinn í Hofi og segir Kolbrún að húsið henti einstaklega vel fyrir svona uppákomu. Áður var dagskráin á fleiri en einum stað í bænum. Þetta er stærsti og viðburðarríkasti dagurinn okkar, þar sem í boði verður fjölbreytt dagskrá. Það taka fjölmargir nemendur þátt í deginum, allt frá þeim yngstu og upp í þá sem lengst eru komnir og við reynum að sýna þversniðið á þessum tónleikum. Þá verðum við með hljóðfærakynningu á stóra sviðinu í Hofi kl. 11.00 og þar geta ungir sem aldnir fengið kynningu á öllum þeim hljóðfærum sem kennt er á við skólanum. Eftir hljóðfærakynninguna verður ratleikur fyrir börnin, sem mun aðallega berast upp í húsnæði Tónlistarskólans á þriðju hæð. Þar verða stofur opnar og hægt verður að kynna sér hljóðfærin betur og prófa þau, segir Kolbrún.
Hún hvetur bæjarbúa til að koma í Hof á laugardag og kynna sér það öfluga starf sem fram fer í skólanum, kynnast hljóðfærum og hlýða á fjölbreytta tónleika. Eldri nemendur verða klassíska tónleika í Hamraborg kl. 12.30 og klassískir tónleikar verða í Hömrum kl. 13.30. Fram koma yngri hópar Suzukinemenda en einnig verða einleiksatriði. Hljómsveitir skólans, strengjasveitir 1 og 2, Grunnsveit, Blásarasveit, Big Band, Tangoband og slagverkshópar verða með tónleika í Hamraborg kl. 14.30. Kl. 16:00 verða rytmískir tónleikar í Hömrum, þar sem fram koma Jazz- og dægurhljómsveitir skólans ásamt söngnemendum.
Alls eru um 430 nemendur í Tónlistarskólanum á Akureyri og rúmlega 40 starfsmenn, en margir kennarar eru í hlutastarfi. Kolbrún segir að starfið í skólanum sé mjög öflugt, bæði í klassísku og rythmísku námi, en kennt er samkvæmt námskrá frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Við erum alltaf með þessu opinberu áfangapróf fyrir páska og það stefnir í á milli 50 og 60 áfangapróf núna, sem er svipaður fjöldi og á síðasta ári, segir Kolbrún.