Dagur íslenskrar tungu á Grænuvöllum

Börnin bíða þolinmóð eftir stóru stelpunum úr Hvammi.  Mynd: JS
Börnin bíða þolinmóð eftir stóru stelpunum úr Hvammi. Mynd: JS

 

Það var haldið upp á Dag íslenskrar tungu á leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík í gærmorgun. Þegar fréttaritari vikudags.is leit við voru börnin að koma sér fyrir, setja sig í þjóðlegar málfarslegar stellingar og bíða eftir góðum gestum. Sem sé eldri bæjarbúum sem komu gagngert til að njóta stundarinnar og syngja með Grænuvallabörnum. „Við þurfum að bíða aðeins eftir stóru stelpunum,“ sagði Sigríður Valdís leikskólastjóri. Og þær komu innan stundar, fimm stálpaðar stöllur úr Hvammi eða Miðhvammi.

Sigga Valdís sagði í samtali við vikudag.is að unnið væri að mjög auknum samskiptum Grænuvalla og Hvamms, og kynnu báðir vel að meta, yngri og eldri borgarar. Grænuvallabörn sóttu á dögunum Hvamm heim og spiluðu bingó með íbúunum þar og nú endurguldu eldri borgarar þá heimsókn. Þá er fyrirhugaður sameiginlegur laufabrauðsskurður þessara hópa.

Sigga Valdís rifjaði upp sitthvað sem börnunum hafið verið sagt um Jónas Hallgrímsson og þeim þótti mikið til þess koma að hann ætti 209 ára afmæli þennan dag. Og síðan brustu viðstaddir í söng og fluttu m.a. ljóð Jónasar, „Buxur, vesti, brók og skór“ og sitthvað fleira. JS

Nýjast