Dagskráin 17. júní á Akureyri

Þjóðhátíðardagurinn verður haldinn hátíðlegur á Akureyri á morgun með skipulagðri dagskrá. Í ár er það skátafélagið Klakkur sem sér um hátíðahöldin. Það kennir ýmissa grasa í dagskránni sem hefst formlega kl. 10 í fyrramálið. Hér á eftir verður stiklað á stóru í dagskránni.


Dagskráin á Akureyri hefst klukkan 10 með því að Lúðrasveit Akureyrar "vekur bæinn" með viðkomu á Fjórðungssjúkrahúsinu, Dvalarheimilinu Hlíð og fleiri stöðum.  
Klukkan 13 hefst hátíðardagskrá í Lystigarðinum þar sem Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri flytur ávarp, séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir leiðir helgistund og kór Akureyrarkirkju  syngur.  

Klukkan 13.30 leggur skrúðgangan af stað niður á Ráðhústorg þar sem fjölskylduskemmtun hefst klukkan 14.  Auk hefðbundinni liða á borð við ávarp nýstúdents og fjallkonu verður reynt að mynda stærsta barnakór Íslands og verður það verkefni í höndum Heimis Ingimarssonar.  Töframaður ungi Einar einstaki stígur á svið, Leikhópurinn Lotta, Skólahljómsveit Austurbæjar, Dansfélagið Vefarinn, Húni II siglir á Pollinum og fleira.  Ekki má gleyma hinu sívinsæla skátatívolí sem verður sett upp í miðbænum en það er Skátafélagið Klakkur sem skipuleggur dagskrána.  Kynnar verða þau Ingimar Björn Davíðsson og Sigyn Blöndal.

Hátíðardagskráin á Ráðhústorgi stendur til klukkan 17 og hefst svo aftur klukkan 21.  Þá verður m.a. boðið upp á atriði úr sýningu Freyvangsleikhússins  Vínlandið sem gerði í vikunni góða ferð suður yfir heiðar, Point dansstudíó sýnir atriði úr Hairspray, hljómsveitin Umsvif spilar og það er svo í höndum hljómsveitarinnar Manhattan að klára kvöldið en það endar eins og venjulega með þeirri akureysku hefð að nýstúdentar frá Menntaskólanum fjölmenna um miðnætti  á Ráðhústorgog marsera glaðir í bragði út í lífið. 

Nýjast