Pílagrímaganga laugardaginn 17. ágúst
Eðli pílagrímaferða er að leita til helgra staða til að endurnæra líkama og sál, þær eru til andlegrar uppbyggingar og reyna á líkamann í leiðinni. Þó gengið sé í hóp gefst hverjum og einum tækifæri til að ganga í þögn, ganga með Guði, leyfa nærveru Guðs og kærleika að umvefja sig í kyrrðinni sem ríkir á fjallinu.
Leiðin yfir Heljardalsheiði er gömul þjóðleið milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Þar göngum við í spor Guðmundar góða og allra þeirra annarra sem erindi áttu milli þessara byggðarlaga öldum saman. Boðið er upp á rútuferð frá Hólum að Atlastöðum kl. 7.00 um morguninn, en einnig er hægt að koma í hópinn við Atlastaði. Gert er ráð fyrir að ganga af stað frá Atlastöðum um kl. 9.30.
Gengið er fram innsta hluta Svarfaðardals, upp brattar brekkur upp í skarð á háheiðinni, Heljardalsheiði, síðan niður mikinn bratta að Heljará sem þarf að vaða. Þaðan er fremur auðveld ganga niður í Kolbeinsdal og að Kolbeinsdalsá þar sem fólk verður ferjað yfir og keyrt að grunnskólanum á Hólum. Síðasta spölinn er svo gengið til kirkju þar sem pílagrímar taka þátt í kvöldbænum kl. 18.00. Sundlaugin verður opin fyrir pílagríma eftir gönguna og svo verður kvöldverður á Hólum kl. 20.00.
Nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm og helst vaðskóm, vel búin með nesti, hlýjan fatnað og regnfatnað. Einnig er gott að vera með vaðskó til að vaða Heljará (og jafnvel fleiri ár).
Leiðin er í sjálfu sér ekki mjög erfið, að mestu er gengið á gömlum, en illa förnum og talsvert grýttum, vegaslóða. En gæta skal að því að takast þarf á við talsverða hækkun (um 500 m) og langan göngutíma (um 7 klst). Reynt er að ganga á þægilegum hraða og halda hópinn á leiðinni.
Þess ber að geta að hver og einn göngumaður ber ábyrgð á sjálfum sér og sínu og ætti að huga að tryggingarmálum og öðru því sem vert er að gæta að.
Fararstjóri er: sr. Guðrún Eggertsdóttir.
Skráning er hjá sr. Gylfa Jónssyni
a netfanginu: srgylfi@centrum.is og í síma 895 5550.
Guðrún Eggertsdóttir