Óvenjuleg gæludýr í Áshlíðinni á Akureyri

Björn Stefánsson refaskytta frá Hesjuvöllum er með frekar óvenjuleg gæludýr heima sér í Áshlíðinni á Akureyri þessa dagana. Um er að ræða tvo yrðlinga, ref og læðu, sem hann náði lifandi í Eyjafjarðarsveit fyrir um mánuði. Björn var við refasveiðar í Eyjafjarðarsveit ásamt félaga sínum, Hannesi Haraldssyni á Engimýri, í síðasta mánuði og veiddu þeir samtals 48 dýr, bæði fullorðna refi og yrðlinga. Á síðasta ári veiddu þeir félagar 38 dýr í Eyjafjarðarsveit.  

Í Áshlíðinni fá yrðlingarnir, sem eru eins og hálfs mánaðar gamlir, að leika lausum hala, enda nokkuð gæfir. Þeir una hag sínum vel á lóðinni og hafa athvarf undir veröndinni og í bíl á bílastæðinu. Þeir eru reyndar farnir að fara yfir til nágranna Björns, sem reka upp stór augu yfir heimsóknum þeirra. Björn segir að yrðlingarnir séu farnir að grafa sig undir gasgrillið sitt og hann á allt eins von á því að þeir fari að taka upp kartöflur í görðum nágranna sinna.

Sváfu uppí rúmi

Til að byrja með voru yrðlingar  hafðir í hundabúri innan dyra og einnig fengu þeir að sofa uppi í rúmi hjá Stefáni, 12 ára syni Björns. Hann segir að yrðlingarnir séu duglegir að étja, þeir rífi m.a. upp fífla og éti rótina og þá eru þeir sérstaklega hrifnir af agúrku. Á heimilinu er einnig tíkin Dimma og segir Björn að hún hugsi vel um yrðlingina og að samkomulagið sé gott. Dimma haldi að hún sé mamma þeirra og að þeir líti á tíkina sem móður sína.

Nýjast