Lífsstíll að rækta eigið grænmeti

„Fyrir marga er þetta lífsstíll, fólk vill gjarnan vera sjálfbært, njóta útiveru, dunda við ræktun sína og njóta afrakstursins að hausti og fram eftir vetri,“ segir Jóhann Thorarensen verkstjóri í Ræktunarstöð Akureyrarbæjar við Krókeyri. Bærinn leigir út matjurtargarða og er mikil ásókn í garðana. Nú með haustinu er fyrirhugað að bjóða upp á námskeið þar sem m.a. verður farið yfir geymsluaðferðir og nýtingu á grænmeti. Slík námskeið hafa áður verið haldin í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, matvælasvið og afnot fengist af eldhúsi skólans.

Grenndargarðar í bænum

 Í ljósi vaxandi áhuga hefur Jóhann hug á að kynna hugmynd sína um grenndargarða fyrir bæjaryfirvöldum, þ.e. að setja upp litla garða hér og hvar í hverfum bæjarins. Á hverjum stað gætu verið 10 til 15 garðar og segir hann að í öllum hverfum bæjarins megi finna bletti til að koma görðum af þeirri stærð upp. Nefnir hann m.a. svæði yst við Mýrarveg og eins Eiðsvöll sem dæmi.

Nýjast