Brimborg segir upp starfsfólki á Akureyri
Níu af þrettán starfsamönnum Brimborgar á Akureyri var sagt upp nú um mánaðamótin. Egill Jóhannsson forstjóri segir að ákveðið hafi verið að hætta rekstri tveggja verkstæða fyrirtækisins.
Annað verkstæðið sérhæfir sig í þjónustu við atvinnutæki og hitt verkstæðið sinnir fólksbílum. Við höfum samið við fyrirtækið Kraftbíla um að sjá um þjónustu við atvinnutækin og síðan höfum við samið við Höld um að sjá um fólksbílana. Starfsmönnum okkar býðst að flytja sig yfir á þessi verkstæði.
Egill segir að Brimborg selji áfram nýja og notaða bíla á Akureyri, enda hafi sá þáttur starfseminnar gengið vel. Sömuleiðis verði starfsrækt varahlutaverslun og bílaleiga.
Höldur hefur keypt húsnæði Brimborgar og leigir Brimborg síðan hluta þess.