92. þáttur 1. ágúst 2013
Skólamálfræði
Skólamálfræði er skemmtilegt viðfangsefni með föstu skipulagi sínu og undantekningarlausu reglum - og er af mörgu að taka. Fyrir þá sem hafa gaman af því að rifja upp brot af skólamálfræði, má minna á, að orðum, sem hafa sömu einkenni, er skipt í flokka - orðflokka. Þessi einkenni eru þrenns konar. Í fyrsta lagi eru það merkingarleg einkenni, þ.e.a.s hvers konar merkingu orð hafa. Í öðru lagi eru það formseinkenni eða beygingarleg einkenni, þ.e.a.s. hvernig orð beygjast, og í þriðja lagi er talað um setningarfræðileg einkenni, þ.e.a.s. hvar í setningu og með hvaða öðrum orðum þau geta staðið. Sem dæmi um setningarfræðileg einkenni orða má nefna, að lýsingarorð standa með nafnorðum og atviksorð standa með sögnum.
Beygingareinkenni - formseinkenni - orða ráða því að Þeim er skipt í þrjá meginflokka:
- fallorð: orð sem fallbeygjast,
- sagnorð: orð sem tíðbeygjast - og
- smáorð: orð sem hvorki tíðbeygjast né fallbeygjast.
Eftir þessum beygingareinkennum er orðum skipt í 10 orðflokka.
A Orð sem fallbeygjast - fallorð - eru:
1) nafnorð,
2) lýsingarorð,
3) töluorð,
4) fornöfn,
5) greinir
B Orð sem tíðbeygjast:
6) sagnorð - sem er skipt í ýmsa undirflokka,
C Orð sem beygjast ekki - smáorð:
7) Atviksorð
8) Forsetningar
9) Samtengingar
10) Nafnháttarmerki
Eins og lesendur þekkja, eru fornöfn fallorð sem bæta ekki við sig greini - eins og nafnorð , stigbreytast ekki - eins og lýsingarorð, og segja ekki til um fjölda, röð eða stærð - eins og töluorð. Fornöfn skiptast í persónufornöfn, eignarfornöfn, afturbeygt fornafn (þ.e. fornafnið sig, sér, sín - sem ekki er til í nefnifalli), ábendingarfornöfn, spurnarfornöfn, tilvísunarfornöfn og óákveðin fornöfn.
Örn Snorrason, kennari við Barnaskóla Akureyrar, gerði á sínum tíma vísur til þess að kenna nemendum að muna atriði úr skólamálfræði. Ein kunnasta minnisvísa hans í málfræði er vísan um óákveðnu fornöfnin:
Annar, fáeinir, enginn, neinn,
ýmis, báðir, sérhver,
hvorugur, sumur, hver (og) einn,
hvor (og) nokkur, einhver.
Við þessa vísu var bætt romsu með þeim óákveðnum fornöfnum sem ekki tókst að binda í rím: annar hvor, annar hver, annar tveggja, hvor tveggja, annar tveggja, allur, slíkur, sjálfur, samur og þvílíkur. Á þennan hátt tókst barnakennurum fá nemendur til að muna og hafa gaman af málfræði málfræðistagli. Vona ég að fróðleiksfús lesandi hafi haft gaman af þessu málfræðistagli.
Tryggvi Gíslason