Býst ekki við neinu öðru en hörkuleik
Þrír leikir fara fram í N1-deild karla í handknattleik í kvöld. Í Höllinni á Akureyri taka heimamenn á móti Aftureldingu, FH sækir Fram heim og Valur tekur á móti Gróttu. Akureyri leikur sinn annan heimaleik í röð í kvöld en liðið kom sér aftur á sigurbraut í deildinni með 34-21 sigri gegn Gróttu í síðustu umferð.
Lið Aftureldingar lagði topplið Fram óvænt að velli á sama tíma og ljóst að ekki má vanmeta Mosfellinga. Bæði Akureyri og Afturelding töpuðu í bikarnum um síðustu helgi og mæta því særð til leiks. Aðeins eitt stig skilur liðin að fyrir leikinn í kvöld, Akureyri hefur fimm stig í sjötta sæti en Afturelding fjögur stig í því sjöunda.
Það er ekkert annað í stöðunni en að rífa sig upp. Núna er þetta eina keppnin sem eftir er hjá okkur eftir tapið í bikarnum. Við þurfum því heldur betur að girða okkur í brók og fara að hala inn stig í deildinni, segir markvörðurinn geðugi í liði Akureyrar, Sveinbjörn Pétursson. Ég býst ekki við neinu öðru en hörkuleik í kvöld. Afturelding sýndi gegn Fram að þetta er lið sem berst til síðasta blóðdropa og þegar þeir hafa trú á verkefninu fara þeir langt. Þeir eru með hörkugott lið Mosfellingar og þar á meðal hörkumarkverði, segir Sveinbjörn.
Nánar er hitað upp fyrir leikinn og fjallað um N1-deild karla í Vikudegi í dag.